144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að hvorki ég né aðrir píratar eru á neinum af þessum minnihlutaálitum er vegna þess að við erum áheyrnarfulltrúar í atvinnuveganefnd og getum ekki verið á álitunum og höfum ekki atkvæðisrétt í þeirri ágætu nefnd.

Hv. þingmaður spurði áðan hvað mér þætti um efnislega umræðu um fundarstjórn forseta. Ég hef ekki verið með efnislega umræðu í liðnum um fundarstjórn forseta. Ég treysti virðulegum forseta til ýmissa verka, þar á meðal að ávíta menn og hann hefur gert það þegar þess hefur þurft að mínu viti. Það er virðulegs forseta að ákveða þetta, ekki mitt. Og sömuleiðis, allt um hvað þjóðin er þreytt á að horfa á okkur tala hérna, þá lætur hv. þingmaður eins og þetta komi meiri hlutanum ekkert við, eins og það sé ekki virðulegur forseti sem komi að dagskránni, eins og það sé bara minni hlutinn sem er svona vondur að leyfa ekki meiri hlutanum að ráða alltaf, undantekningarlaust. En ef svo væri að þessi 60% þingsæta ættu alltaf að ráða undantekningarlaust, alveg sama hvað tautar og raular, þá gæti minni hlutinn alveg eins farið heim (Forseti hringir.) að loknum kosningum og lifað á launum án þess að gera handtak næstu fjögur árin á eftir, eins og reyndar sumir þingmenn eiga til að gera.