144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það voru einhverjir að spyrja hér og voru vongóðir um að það hefði verið gefið klukkutímalangt kvöldverðarhlé en ekki hálftími eins og vant er, en það var vegna fundar í umhverfis- og samgöngunefnd sem var klukkutímalangur. Ég held að hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson geti gert grein fyrir því hversu mikilvægur sá fundur var í ræðu sinni hér á eftir. Ég ætla ekki að dvelja við það.

Það sem kemur fram í Fréttatímanum varðandi rangfærslur hæstv. forsætisráðherra er grafalvarlegt mál. Hann ætlar að skýla sér og valdníðslu sinni og meiri hlutans varðandi rammaáætlun bak við — hvaða fólk? Bak við fólkið sem er að berjast fyrir betri kjörum. Þetta er um það bil það lítilmótlegasta sem ég hef vitað. Að forsætisráðherra forréttindanna og ríka fólksins í landinu velji sér Alþýðusamband Íslands sem skjöld til þess að fara fram með ruddaskap gagnvart íslenskri náttúru. Þvílík staða, virðulegur forseti.