144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég segi eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir að ég vonaðist til þess að eftir klukkutíma í matarhlé hefði forseti eitthvað nýtt til málanna að leggja og að tíminn hefði verið nýttur til þess að leysa þann mikla vanda sem við erum í og þann hnút sem þingstörfin eru komin í. Hæstv. forseti hefur sagt að dagskrárliðurinn sem er nú á dagskrá sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að það sé mikilvægt að brjóta gegn lögum um rammaáætlun til þess að koma á friði á vinnumarkaði. Nú hefur komið í ljós að hæstv. forsætisráðherra hefur ekkert rætt þetta við aðila vinnumarkaðarins eða þá sem eiga í vinnudeilu. Því vil ég taka undir það sem aðrir hafa sagt hér að forsendubrestur sé fyrir þessari umræðu og það eigi að ljúka henni og taka mikilvægari mál á dagskrá.