144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Í klukkutímalöngu kvöldverðarhléi núna áðan var fundað í umhverfisnefnd og fjallað um tillögu framsóknarmanna um að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg þegar kemur að flugvellinum í Reykjavík. Það er tillaga sem ég efast um að verði borin upp til samþykktar í þessum þingsal, en þetta var einhvers konar leiksýning til að sýna fram á að flutningsmanni tillögunnar og formanni umhverfisnefndar, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, væri mjög annt um staðsetningu flugvallarins.

Það sem er í megindráttum að henni, að mínu mati, er að hún boðar uppgjöf samtalsins. Hún gengur í raun út á það að nú séu menn búnir að fá nóg af því að fá ekki niðurstöðu í málið og þá ætla þeir bara að ráða með lögboði. Nákvæmlega sama er í gangi (Forseti hringir.) hér varðandi málið sem er á dagskrá. Þetta er algjör uppgjöf (Forseti hringir.) gagnvart ferlum, gagnvart því að tala saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu.