144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það sannast enn og aftur að tilgangurinn með því að vera hérna í kvöld snýst ekki um það af hálfu meiri hlutans að við komum saman og rökræðum málið. Ef svo væri væri hæstv. forsætisráðherra væntanlega hér eða einhverjir af talsmönnum hans að rökræða þau atriði við okkur sem nú hafa komið fram í fjölmiðlum, þ.e. að þetta komi kjaradeilunum ekkert við, sem var reyndar augljóst fyrir fram að mínu mati. Ef við ætlum að fara að nota einhver rök með eða á móti málinu þá er sjálfsagt að það sé rætt hérna inni en ekki bara í fjölmiðlum. Hæstv. forsætisráðherra hefur þá sterku tilhneigingu til að ræða við okkur hér í gegnum fjölmiðla. Það undirstrikar það að markmiðið hér er að halda þinginu uppteknu á meðan minni hlutinn hefur lagt ítrekað fram tillögur um það að við ræðum eitthvað sem er aðkallandi í þjóðfélaginu, t.d. kjaradeilurnar, af nógu er að taka. Í staðinn erum við að sóa tíma og velta fyrir okkur hvað ætli sé satt sem hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra segi.