144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

um fundarstjórn.

[20:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins fundarstjórn forseta og kannski hálfpartinn bera af mér sakir. Ég þurfti að hlaupa hér af nefndasviði áðan vegna þess að við vorum með fund í umhverfis- og samgöngunefnd og ég greip andann á lofti því að ég hélt að ég væri næstur í ræðu og var kannski að vona að hér yrði ekki málþóf undir liðnum um fundarstjórn forseta. Ég hef bara ekki náð djúpandanum, það var nú kannski þess vegna sem ég dæsti hér það hátt að einhverjum misbauð það. En ég held að við ættum ekki að gera lítið hvert úr öðru þó að við séum ósátt við þetta mál. Ég vil sérstaklega hrósa Pírötum fyrir það.

Ég hélt þennan fund, af því það var nefnt áðan, vegna þess að óskað var eftir því úr stjórnarandstöðunni að fá menn á fundinn. Ég taldi nauðsynlegt, í ljósi þess að við fundum bara til klukkan tíu á morgnana, búið er að breyta fyrirkomulaginu, að hér yrðu haldnir fundir eins og í öðrum nefndum og viðgekkst á síðasta kjörtímabili, (Forseti hringir.) það var nú ætlunin. En ég vil (Gripið fram í.) segja eitt, og nú er gripið fram í, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) virðulegi forseti. Hér fer fram efnisleg umræða, en það hafa bara tvær efnislegar ræður komist að um þetta mál í dag. (Forseti hringir.) Það er ekki eðlilegt, virðulegi forseti.