144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er þriðja efnislega ræðan sem fer fram um þetta mál í dag fyrir utan allar þær ræður sem voru haldnar hér um fundarstjórn forseta. Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir var fyrst á mælendaskrá, Helgi Hrafn Gunnarsson var annar og ég var þriðji. Við byrjuðum þennan fund kl. 10 í morgun og hér hafa verið haldnar fjölmargar ræður um fundarstjórn forseta sem ég verð að viðurkenna að hafa ekki verið neitt annað en efnisleg umræða um þetta mál. (BjG: Það er ekki rétt.) Ég er þeirrar skoðunar …

Virðulegi forseti. Get ég fengið þögn frá stjórnarandstöðunni? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

(Forseti (SilG): Ræðumaður hefur orðið. (Gripið fram í.) Ræðumaður hefur orðið í þingsal.)

Ég held að það sé rétt að forsætisnefnd fari yfir það hvort þessi tilhögun á fundarstjórn forseta sé í samræmi við þingsköp. Ég er þeirrar skoðunar að hún brjóti gegn reglum um fundarstjórn forseta. Aðalástæðan fyrir því að ég kem hér upp í ræðu — ég sé að það er órói í þingsalnum, hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hleypur út — er sú að mig langaði að koma og styðja minn ráðherra sérstaklega, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur. Hún hefur haldið hér margar góðar ræður undir svipuðum kringumstæðum og núna en hún hefur lýst þeirri skoðun sinni að hún sé fylgjandi virkjunarkostunum í neðri hluta Þjórsár. Hún færði þau rök fyrir máli sínu að verkefnisstjórn rammaáætlunar hefði rannsakað þá og sett þá fram. Þeir væru að mestu fullrannsakaðir, eins og hún sagði orðrétt, og vísaði svo í verkefnisstjóra, að það hefði kannski ekki vantað nema hársbreidd upp á að þeir væru fullrannsakaðir. Ég held að þetta mat hennar sé í fullu samræmi við þau lög sem gilda, lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ég vil líka segja að ég er sammála ráðherra varðandi Hagavatn, að sú tillaga sé ekki fullrannsökuð. Ég er ósammála því sjónarmiði að það gefi þá tilefni til að málið fari aftur í nefnd. Ég held einfaldlega að fara eigi fram atkvæðagreiðsla um þessa kosti. Ég held að það sé nauðsynlegt og vonast til að sú atkvæðagreiðsla geti farið sem fyrst fram. Þó verð ég að segja að ég hef líka hlustað á þá aðila, og þeir eru þó nokkuð margir, sem telja mikilvægt að farið verði í þessa virkjun og vísað sérstaklega í umhverfissjónarmið; benda á að sandfok og annað sé hægt að hefta með þessum hætti. Hún nefndi það sérstaklega hér í ræðu sinni að hægt væri að leggja fram þingsályktunartillögu um að sú virkjun verði rannsökuð sérstaklega.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi í sinni ræðu ef ég man rétt — hv. þingmaður leiðréttir mig annars — að við ættum ekki að horfa mikið til þess hvað var gert hér á síðasta kjörtímabili. Ég er ekki sammála hv. þingmanni, ef ég hef skilið hann rétt, og mig langar sérstaklega að vísa í álit sem kom frá ASÍ þegar sambærileg mál voru hér til umfjöllunar í nefnd. Þetta erindi er dagsett 7. maí 2012 en þar segir, með leyfi forseta:

„Sjálfbær nýting auðlinda landsins er þjóðhagslega mikilvæg og er grunnur að samfélagslegri velferð og bættum skilyrðum landsmanna sem verkalýðshreyfingin berst fyrir.“

Ég held áfram, einnig með leyfi forseta:

„ASÍ gerir alvarlegar athugasemdir við þá tillögu til þingsályktunar sem hér er til umfjöllunar. Veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á tillögunni frá þeim drögum sem kynnt voru síðastliðið haust. Sex virkjunarkostir; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkalda, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II, sem samkvæmt drögum að þingsályktunartillögu flokkuðust í nýtingarflokk eru nú flokkaðir í biðflokk. Í biðflokk er einungis gert ráð fyrir að setja þá virkjunarkosti þar sem upplýsingar skortir til að hægt sé að ákvarða hvort setja eigi viðkomandi virkjunarkost í verndarflokk eða nýtingu.

Til að tryggja faglega umfjöllun lögðu faghópar mat á gæði þeirra gagna sem þeir byggðu mat sitt á. Var gæðamatinu skipt í fjóra flokka:

A. Mjög góð gögn sem að mestu nægja fyrir umhverfisáhrifum.

B. Góð gögn sem nægja fyrir mat rammaáætlunar.

C. Sæmileg gögn sem tæpast nægja fyrir mat rammaáætlunar.

D. Ónóg gögn fyrir mat.

Gögn þriggja virkjunarkosta, þ.e. Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar, sem nú er lagt til að fari í biðflokk fengu fullt hús stiga (A) hjá öllum faghópunum. Þau rök sem færð eru fyrir tilflutningi þessara virkjunarkosta úr nýtingarflokki í biðflokk eru því ótrúverðug og ekki byggð á faglegum vinnubrögðum.

Rökin fyrir því að færa Skrokköldu, Hágönguvirkjun I og Hágönguvirkjun II úr virkjunarflokki í biðflokk eru að í faglegri vinnu við undirbúning rammaáætlunar hafi ekki verið tekið tillit til þeirra viðmiða sem stuðst var við þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður. Það er sérkennilegt að breyta forsendum fyrir faglegu mati þegar það liggur fyrir og eru að mati ASÍ ekki ásættanleg vinnubrögð.

ASÍ telur mikilvægt að Alþingi standi vörð um þau faglegu vinnubrögð sem einkennt hafa þá miklu og löngu undirbúningsvinnu sem að baki rammaáætlunar liggur. Þá telur ASÍ mikilvægt að sú breiða sátt um fagleg vinnubrögð sem einkennt hefur allt undirbúningsferlið verði ekki rofin á lokametrum vinnunnar við áætlunina.

ASÍ mælist því til að umræddir sex virkjunarkostir verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk í meðförum Alþingis.“

Eins og ég sagði áðan er þessi umsögn dagsett 7. maí 2012. Það sem ég var að velta fyrir mér, og fannst athyglisvert, fyrir utan þessa hörðu gagnrýni sem kemur frá ASÍ er að það lítur svo á að þessi lög hafi verið einhvers konar sáttaferli. Ég hef heyrt marga, bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga, reifa hér að það eigi að reyna að ná sátt þó að flestir geri sér grein fyrir að á einhverjum tímapunkti þegar ekki næst saman þá þarf einfaldlega að greiða atkvæði um hlutina. Mig langar samt að vísa í ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur vegna þess að ég veit að hún hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki og hún hefur beitt sér þar þó að ég sé henni kannski ekki alveg sammála um einhverja hluti. Hún segir í sinni ræðu:

„Rammaáætlun var ekki hugsuð til að ná sátt, vegna þess að sátt verður ekki náð í svona stóru máli. Endanlegri sátt verður aldrei náð um hvað eigi að virkja og hvað eigi að nýta. Mörg okkar erum þeirrar skoðunar að það sé nóg komið, það sé löngu komið nóg, það sé komið nóg af nýtingu, það sé komið nóg af virkjunum. Mörg okkar eru þeirrar skoðunar að það megi gefa miklu, miklu meira í og að nýta megi orkuauðlindina hiklausar en gert hefur verið. Þær skoðanir eru líka uppi.

Rammaáætlun, sama hversu góð hún er, mun aldrei ná að sætta þau sjónarmið. Þau eru fyrir hendi, þau hafa verið fyrir hendi og þau munu verða fyrir hendi. Rammaáætlun var hugsuð sem einhvers konar sameiginlegur skilningur á leikreglum og á grundvelli niðurstöðunnar. Stærsti mikilvægi áfanginn náðist kannski að því er varðar þetta langa ferli, sem nær yfir hartnær 20 ár, þegar lögin voru sett á Alþingi árið 2011.“

Svo bætir hún við:

„Eins og títt er þegar slíkur grundvöllur er lagður er okkur ekki endilega ljóst í byrjun hverjir gallar aðferðafræðinnar reynast síðan verða, hvar við eigum eftir að steyta á skeri, hvar við eigum eftir að lenda í vandræðum, hvar við erum sammála og hvar við erum ósammála því að verkfærið nýtist okkur sem skyldi.“

Ég hef lagt mig fram um að reyna að fylgjast með efnislegum umræðum um þetta mál. Mér finnst það mikilvægt og ég veit að margir, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hafa mjög margt gott til málanna að leggja. Ég greip þennan punkt á lofti vegna þess að ég er sammála honum á margan hátt, kannski ekki alveg þeim að rammaáætlun hafi ekki verið hugsuð til þess að ná sátt. Ég held reyndar að hún hafi verið gerð með það í huga, það er mitt mat eftir að hafa kynnt mér þessi lög.

Ég vil samt benda á, af því að ég kynnti mér aðeins lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, að í greinargerð með lögunum, af því að hér hefur verið rætt mikið um verkefnisstjórn, segir að verkefnisstjórnin eigi eingöngu að vera til ráðgjafar. Ég get ekki skilið þau orð öðruvísi en að þau eigi bara að túlka samkvæmt orðanna hljóðan, að það sé ekki þannig að verkefnisstjórnin hafi endanlegt úrskurðarvald um það hvað eigi að færast úr biðflokki í nýtingarflokk o.s.frv. Það vakti reyndar athygli mína, af því að hér var aðeins komið inn á fund í umhverfis- og samgöngunefnd áðan, þegar við erum að ræða sjálfsákvörðunarvald, að í þessum lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er skipulagsvaldið í raun tekið af sveitarfélögunum á einum stað algjörlega. Þau verða að aðlaga sig að ákvörðunum Alþingis. Ég nefni þetta til gamans, ég veit að mjög margir eru áfram um þessi mál, við höfum verið svolítið að velta fyrir okkur hvar þessi valdmörk liggja og túlkun á 78. gr. stjórnarskrárinnar. Það liggur að minnsta kosti fyrir í þessum lögum, sem við erum kannski að ræða hér á annan hátt, að þegar búið er að fara í tilteknar aðgerðir og ákveða hvað eigi að fara í tiltekinn flokk verður sveitarfélag að breyta aðal- og deiliskipulagi í samræmi við það. Mér finnst þetta athyglisvert og sé að félagar mínir í Pírötum eru hér í þingsal og ég veit að þau leggja sig fram um að skoða þessi rök og velta þeim fyrir sér. Ég veit að þau hafa mikið talað fyrir lýðræði og að þjóðin öll fái að tjá sig og fulltrúar þeirra. Ég bið þau sérstaklega að kíkja á þessi rök.

Af því að ég minntist hér á ræðu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur þá segir hún hér:

„Eins og títt er þegar slíkur grundvöllur er lagður er okkur ekki endilega ljóst í byrjun hverjir gallar aðferðafræðinnar reynast síðan verða, hvar við eigum eftir að steyta á skeri …“

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hér er ágreiningur um túlkun á þessum lögum. Ég hef mínar skoðanir og ég reifaði þær aðeins hér í byrjun, en mér fannst gott það sem meiri hluti atvinnuveganefndar segir í meirihlutaáliti sínu:

„Við umfjöllun um tillögu þessa hafa vaknað spurningar hjá meiri hlutanum um hvort rétt væri að staldra við og huga að endurmati á ferlinu þó svo að meiri hlutinn sé í grunninn sammála því ferli sem lögin byggjast á.“

Ég er sannfærður um að ef við náum að hefja okkur upp yfir þau miklu átök sem hafa átt sér stað í þingsal undanfarna daga séu kannski fleiri þeirrar skoðunar að það sé í góðu lagi og kannski nauðsynlegt að velta því fyrir sér að minnsta kosti hvort ekki þurfi að fara aðeins betur ofan í lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011, og breyta þeim þannig að við séum kannski ekki með þennan ágreining.

Ég hef hlustað á sjónarmið formanns atvinnuveganefndar. Mér finnst hann rökstyðja málflutning sinn vel. Ég hef líka reynt að lesa mér aðeins til, til dæmis álit sem hafa komið frá ráðuneytum, en um það vil ég þó segja að hvaða skoðanir sem menn hafa þá hlýtur, bara eins og í dómsmálum, að vera einhver sem sker úr um hvernig hlutirnir eiga að verða. Hér á Alþingi er það einfaldlega forseti Alþingis. Honum er falið það vald samkvæmt þingsköpum, ég hef heyrt að margir séu mjög ósáttir við þá tilhögun og mjög ósáttir við þá niðurstöðu. Þetta er svona eins og þegar dómsmál eru útkljáð, sérstaklega fyrir Hæstarétti; af því að það er hin endanlega niðurstaða er mjög erfitt fyrir lögmenn að koma fram og segja að enn sé uppi lagalegur ágreiningur. Það er búið að taka ákvörðun og hvort sem mönnum líkar betur eða verr held ég að það sé mjög mikilvægt að menn virði þá niðurstöðu.

Að svo búnu vonast ég til, og ég virkilega meina það, að fyrr en ella verði hægt að greiða atkvæði um þessar tillögur. Mér sýnist á öllu að stjórnarandstaðan hafi heldur betur komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég biðla enn til forsætisnefndar að hún skoði hvort ekki sé verið að misnota þingsköpin og biðla þá líka til þeirra sem eru miklir sérfræðingar í þeim og vísa ótt og títt í þau — ég horfi hér á félaga minn, hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson — að kíkja á þetta. Ég hef ekki meira um þetta að segja í bili og þakka fyrir gott hljóð í salnum.