144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:05]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og með svo margt annað held ég að maður geti aldrei sett sig nægilega vel inn í hlutina, inn í öll þau fjölmörgu mál sem koma upp. Ég reyndi mitt besta til að gera það í þessu máli og taldi mig halda ræðu sem endurspeglaði það. En sitt sýnist hverjum um það.

Fyrst varðandi álit ASÍ. ASÍ er á því núna, af því að við erum auðvitað í núinu, að ekki sé verið að fara eftir réttum vinnubrögðum. Þeir voru líka á þeirri skoðun í fyrra áliti sínu að ekki væri farið eftir rammaáætlun eða lögunum. Í báðum tilvikunum var ASÍ þeirrar skoðunar, það er það sem ég er að benda á, vegna þess að það er svo oft í umræðunni sem talað er um að þetta hafi verið í lagi síðast en sé ekki í lagi núna.

Þá vil ég koma að seinni spurningunni. Að sjálfsögðu styð ég núverandi umhverfisráðherra, við erum auðvitað í núinu. Það að hæstv. sjávarútvegsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson skyldi koma með tillögur sínar — ég er líka þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að þingið hafi tækifæri til að fjalla um mál og breyta. Alþingi (Forseti hringir.) er ekki stimpilstofnun, ég hef haldið margar ræður um það. (Forseti hringir.) Ef þingmaðurinn á við það þá náum við kannski ekki alveg saman.