144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Alþingi hefur möguleika á að breyta þeirri tillögu sem ráðherra lagði hér fram fyrir áramótin um Hvammsvirkjun, ekki koma með neinar aðrar tillögur heldur bara breyta þeirri tillögu, gera breytingar á henni.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart því að formaður verkefnisstjórnar telur að þeir kostir sem þeir gátu ekki afgreitt í verkefnisstjórn — þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, hæstv. ráðherra, fól þeim að meta átta kosti og lagði bara til einn — séu ekki nógu vel rannsakaðir. Faghópurinn sem fjallaði um laxinn í Þjórsá treysti sér ekki til að skila endanlegu áliti vegna þess að það mál væri ekki fullrannsakað. Þannig er það nú bara.

Ætlar hv. formaður umhverfis- og samgöngunefndar, sá sem ætti að standa vörð um umhverfið og faglega meðferð í þessu máli, virkilega að taka meira mark á hv. þm. Jóni Gunnarssyni í þessum efnum frekar en verkefnisstjórn (Forseti hringir.) og undirfaghópum hennar? Er það virkilega þannig að hann ætli (Forseti hringir.) að gera það? Þyrfti hann þá ekki að lesa sér betur til í þeim gögnum sem hér liggja fyrir, ef svo er?