144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram varðandi nefndarálit meiri hlutans. Það er gerð ágæt grein fyrir ferlinu, eins og það var á síðasta kjörtímabili, og nefndin gerir enga athugasemd við það hvernig ferlinu vatt fram. En það má skilja af uppsetningu málsins að uppleggið, áður en opið umsagnarferli átti sér stað, hafi verið 16 kostir í nýtingarflokki og þeim hafi síðan verið fækkað. Þetta er eitthvað sem ég bendi hv. atvinnuveganefnd vinsamlega á að skoða því að það er rétt að nefndarálitið beri að minnsta kosti ekki í sér staðreyndavillur.

Ég er mjög hugsi yfir stöðu umhverfisráðherra ríkisstjórnarinnar gagnvart þingflokki Framsóknarflokksins. Það hefur ítrekað komið fram að flokksfélagar hæstv. ráðherra Sigrúnar Magnúsdóttur, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir og nú síðast Höskuldur Þórhallsson, styðja í raun ekki skilning ráðherrans á því hversu mikilvægt það er að rammaáætlun fái að fara óáreitt í gegnum þingið eina umferð til þess að hún nái að sanna gildi sitt.