144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fór hér áðan í efnisræðu. Ég fékk andsvör. Ég fékk tækifæri til að svara þeim. Þegar þeim er lokið þá heldur hér áfram efnisleg umræða þar sem nánast hver einasti þingmaður sem hefur talað á undan mér vísar í ræðuna mína eða les beint upp úr nefndarálitinu. (Gripið fram í.) Þetta er ekkert annað en áframhald á efnislegri umræðu og þetta er skýrt brot á þeim þingsköpum sem við vinnum hér eftir. Það sér hver maður að svona getur þetta ekki gengið.

Það getur ekki verið þannig að einhver komi og haldi ræðu og síðan geti menn raðað sér hér í „lange baner“, ég biðst velvirðingar á þessari dönskuslettu. En hér kemur hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og vísar beint í ræðuna; hann er bara ósammála og gerir einhverjar athugasemdir. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson les hér upp úr álitinu; hann hefur ekkert athugavert að segja um fundarstjórn forseta, hann er bara ósáttur við það sem þar kemur fram og vill breyta einhverju og aðeins hnýta í þann sem hélt ræðu hér á undan.

Virðulegi forseti. Þetta er algjör misnotkun á þessum lið og forsætisnefnd Alþingis verður að grípa inn í.