144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég er eiginlega komin á þá skoðun að ástæðan fyrir því að verið er að setja þetta mál á dagskrá — og halda því til streitu án þess að reyna að finna samvinnuflöt á því að setja það í sitt lögformlega ferli — sé sú að ríkisstjórnina vantar tíma til að geta klárað stóru málin, eins og stöðugleikaskattinn, eins og húsnæðiskerfið. Hana vantar hreinlega tíma og vill ekki hleypa í gegn öðrum þingmannamálum … (Gripið fram í.) Farðu á mælendaskrá, hv. frú Vigdís Hauksdóttir.

Ég held að málið sé að ríkisstjórnin er ekki tilbúin. Þess vegna vill hún bara halda okkur í stjórnarandstöðunni uppteknum við að reyna að stöðva þetta mál þannig að ríkisstjórnin þurfi ekki að biðja sjálf um frest á þinginu. Það er bara þannig.

Það eru engin stór mál sem bíða, það er ekkert hér í þinginu, engin af þeim málum sem ríkisstjórnin hefur lofað. Það er þeim að kenna.