144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil biðja forseta að sýna festu í fundarstjórn sinni og taka það mál sem hér er á dagskrá af dagskrá. Málið er fullkomlega vanbúið.

Ég get nefnt nokkur dæmi: Flutningsmenn tillögunnar, hv. þingmenn í meiri hluta atvinnuveganefndar, þekkja ekki lögin um rammaáætlun. Þeir þekkja ekki söguna að baki rammaáætlun, virðist vera, og það hefur komið fram í máli þeirra hér í umræðunni síðustu daga. Einn þeirra hélt reyndar að Hagavatn hefði einhvern tíma verið flokkað í nýtingu. Þeir vita ekki hversu margir virkjunarkostir eru í nýtingu. Og þetta er aðeins lítið af því sem fram hefur komið hér í umræðunni.

Virðulegi forseti. Það er eins og breytingartillagan umdeilda frá hv. atvinnuveganefnd, meiri hluta hennar, sé órökstudd hugdetta og afar illa undirbúin.