144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það þarf að fara að komast til skila að mikill þungi er á bak við kröfuna um að þetta mál verði tekið af dagskrá, að þessi málatilbúnaður verði stöðvaður. Efnisrökin eru svo yfirgnæfandi fyrir því að það verði gert að það hálfa væri nóg, í þessu máli sem slíku. Í raun og veru held ég að við séum samtímis á mikilvægari tímamótum í umhverfismálum, og það kristallist að vissu leyti í þessu máli, en menn átta sig jafnvel á.

Ef við lítum svona fimm til átta ár til baka hefur margt jákvætt gerst í löggjöf og þróun umhverfisréttarins. Við innleiddum Árósasamninginn, við lögbundum rammaáætlunarferlið. Við erum vonandi að fá í gildi ný náttúruverndarlög. Drög að meginreglum umhverfisréttarins voru og eru í þeim tillögum að nýrri stjórnarskrá sem unnið hefur verið með. Allt er þetta til bóta.

En verði þessi tillaga samþykkt og nái þessi málatilbúnaður fram að ganga erum við rifin aftur á baka um ég veit ekki hvað, 10 til 20 ár. Þá er gamla handaflið tekið við aftur og öllum nútímalegum, faglegum viðhorfum (Forseti hringir.) til umhverfisverndar, varúðarreglum og öðru slíku, bara hent. Er það það sem menn vilja? Eru menn hissa á því að við ætlum að gera hvað við getum til að koma í veg fyrir slíkt, frú forseti?