144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef bara komið upp undir þessum lið til að tala um fundarstjórn forseta. Ég geri það vegna þess að ég er mjög óánægður með fundarstjórn forseta og hvernig dagskrárvaldi forseta hefur að mínu mati verið misbeitt í þessu máli. Það hefur ekki verið samráð innan þingsins um hvernig dagskráin á að vera og ég hef komið hérna upp til þess að tiltaka margar röksemdir og augljósar ástæður að mínu mati fyrir því að þetta mál eigi að fara af dagskrá. Þeim athugasemdum kemur maður á framfæri við forseta undir liðnum um fundarstjórn forseta. Það er vissulega réttur forseta að svara í engu spurningunum, setja í ekkert ferli annað en þetta sem við sjáum hér núna. Þá er það réttur minn líka að koma hér upp aftur í þessa mínútu sem ég fæ til að gera athugasemdir og til að láta óánægju mína í ljós. Ég mun gera það vegna þess að ég er hundóánægður með hvernig þinghaldið er. Ég er ekki að tala efnislega um þetta mál.

Síðast kom ég hérna upp til að lesa upp úr nefndarálitinu vegna þess að í því er mjög meinleg staðreyndavilla, sem er enn meiri röksemd fyrir því að við eigum að taka þetta af dagskrá. Meiri (Forseti hringir.) hluti atvinnuveganefndar virðist halda og heldur greinilega samkvæmt nefndaráliti sínu að það sé einungis tíu virkjunarkostir (Forseti hringir.) í nýtingarflokki, en þeir eru 16. Þannig að meiri hluti atvinnuveganefndar kann ekki einu sinni lögin, hann kann ekki einu sinni gildandi áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.