144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er nú svolítið eins og börnin, mér finnst gaman að heyra sömu hlutina aftur og aftur og aftur. Það truflar mig ekki neitt. (Gripið fram í: Börnin læra af því.) — Það er munurinn. [Hlátur í þingsal.]

En þótt ég hafi gaman af að hlusta á sömu hlutina aftur og aftur og kannski læri ég einhvern tímann af því kemur mér svolítið á óvart að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson er enn þá að ræða fundarstjórn forseta því hann lýsti því yfir í gær að hann væri orðinn mjög þreyttur á þessu þrasi um fundarstjórn forseta. Ég veit að Píratar eru sérstaklega áhugasamir um lýðræðið, meira en aðrir, og hafa náð að heilla þjóðina upp úr skónum, og því veltir maður fyrir sér af hverju þeir vilja ekki hætta þessu þrasi um fundarstjórn forseta og taka efnislega umræðu í stað þess að halda þessu alltaf áfram og jafnvel, (Forseti hringir.) af því ég veit að þeir eru líka áhugasamir um bætt stjórnmál, (Forseti hringir.) að tala minna um klikkuðu kallana og mafíósana, alla sem eru ósammála þeim.