144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Eitt af því mörgu sem bæði ég og margir aðrir hafa kvartað undan og mótmælt er það sem er kallað gerræði meiri hlutans, það er hugtak sem menn úr flokki hv. þingmanns þekkja mjög vel, sérstaklega þegar það á að berjast fyrir lýðræðisumbótum þá verða menn ægilega hræddir við meiri hlutann. Það er kannski vegna þess að þeir kannast við hvernig meiri hlutinn getur farið með vald sitt ef hann fær að hafa það vald óskipt og óhindrað í fjögur ár samfleytt, sem er vissulega tilfellið að loknum alþingiskosningum. Eitt af stóru lýðræðisvandamálunum á Íslandi er nákvæmlega það að þrátt fyrir það að hafa 40% þingmanna hefur stjórnarandstaðan 0% valdsins fyrir utan eitt, það er málfrelsið. Það er eina valdið sem minni hlutinn á Alþingi hefur. Á meðan staðan er sú verður minni hlutinn að nota þau verkfæri sem hann hefur til þess að koma sínu áleiðis. Þetta eru ekki fréttir og ætti ekki að hneyksla neinn sem þekkir til. Lausnin á þessu er meira lýðræði og ég hef margsinnis farið yfir lausnir í því efni, skal glaður gera það á öðrum vettvangi en hér í þessari pontu ef hv. þingmaður hefur áhuga á.