144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mig langar aðeins að svara hv. þm. Brynjari Níelssyni sem óvart var skilgreindur í Morgunblaðinu í dag sem þingmaður Framsóknarflokksins í gríðarlega vandaðri úttekt Morgunblaðsins á nefndasetu þingmanna.

Í fyrsta lagi. Kerfið hérna á þinginu er mjög gallað, þingsköpin eru gölluð. Það er enginn vilji hjá meiri hlutanum til þess að laga þá hnökra sem eru á innra starfi þingsins, ekki neinn, þannig að auðvitað getum við ekkert stundað bætt stjórnmál þegar bæði það er að og þegar formaður hv. þingmanns lýsir því yfir að meiri hlutinn ráði. Og við í minni hlutanum upplifum það mjög sterkt að meiri hlutinn, sem þó er einungis tæknilega séð meiri hlutinn en ekki raunverulegur meiri hluti, ræður og fer bara sínu fram. (Forseti hringir.) Þá er ekki hægt að stunda bætt stjórnmál, því miður. Það er á ykkar ábyrgð.