144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:51]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir, hafa verið að réttlæta það að hafa komið hérna upp reglulega og ítrekað í marga daga vegna mikilvægis þess að minni hlutinn hafi áhrif, minni hlutinn hafi einhver áhrif á efnislega niðurstöðu. Ég tek alveg undir það. En stundum heyrir maður þessa sömu þingmenn og marga aðra þingmenn dásama — (Gripið fram í: Bíddu, ertu ekki …) Jú, jú, við erum það, þið talið alltaf um fundarstjórn forseta, ítrekað, í fjölmiðlum og annars staðar um beint lýðræði, um þjóðaratkvæði, í öllum málum (Gripið fram í.) eða sem flestum.

Hver skyldi vera staða minni hlutans, (Gripið fram í.) hver skyldi vera staðan á minni hlutanum við efnislega niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég vildi gjarnan vita það. (Gripið fram í.) Hún er ekki mikil. En hún er allt í einu orðin mikilvæg hér, að minni hlutinn hafi áhrif á niðurstöðu máls. Hann getur auðvitað haft áhrif með efnislegri umræðu og röksemdum. (Forseti hringir.) En minni hlutinn hefur ekkert segja í þessu mikla beina lýðræði.