144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við komum ítrekað hingað upp undir liðnum um fundarstjórn forseta til að benda á að þetta mál er ekki þingtækt.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að hann talaði um önnur þjóðþing og hvernig menn hegðuðu sér þar. Mér er til efs að nokkurs staðar á öðrum þjóðþingum t.d. á Norðurlöndunum, liggi dagskráin ekki fyrir nokkra mánuði fram í tímann, en ekki þannig að þingmenn sjái það kannski með dags fyrirvara hvaða málum er hent á dagskrá. Þetta snýst auðvitað um það að menn semji í byrjun annar og menn leggi það fyrir þingið, alla flokka, hvaða mál verði á dagskrá og þá er hægt að koma í veg fyrir svona rugl eins og við stöndum í hérna, að við vitum þetta fyrir fram. En ef menn geta ekki einu sinni talað saman, ef meiri hlutinn getur ekki einu sinni talað við minni hlutann, gerir ekki einu sinni tilraun til þess, gefur sér bara að minni hlutinn sé óbilgjarn og ósáttfús, (Forseti hringir.) þá skiptir engu máli þó að við breytum öllum þingsköpum, því að þá breytist náttúrlega ekki neitt.