144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ja, hér kemur ræða númer þrjú þúsund og eitt, ef hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur ekki talið sína ræðu með. (VigH: 1.371.) Ég tel að það sé alveg skínandi hugmynd hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni að leysa þetta mál með því að skjóta því til þjóðarinnar hvort hún vilji að rammaáætlun verði eyðilögð. Ég kvíði ekki niðurstöðunni úr þeirri atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í.)

Annars ætti það ekki koma neinum á óvart þó að hér sé mikið rætt um fundarstjórn forseta. Það er einfaldlega vegna þess að hér stendur mikill og enn óbrúaður ágreiningur um dagskrána, um fundahaldið, um það hvernig forseti fer með dagskrárvald sitt. Og við það bætist að það á að heita svo að umræðan fari fram í skjóli þess að forseti hefur með sérstökum en mjög umdeildum úrskurði kveðið upp úr um að þetta sé nú sennilega þingtækt, sleppi væntanlega „þó að á gráu svæði sé“. Er sá úrskurður þó á skjön við lögfræðileg gögn sem koma frekar frá tveimur en einu ráðuneyti. (Gripið fram í: Rangt.)

Deilurnar hér eru því ekki aðeins deilur um efni og innihald, þær eru um dagskrá, þær eru um málsmeðferð, þær eru um lögmæti og þær eru um vinnubrögð. Og hvar á að ræða það við forseta þingsins (Forseti hringir.) annars staðar en í umræðum um fundarstjórn forseta? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)