144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þm. Brynjar Níelsson var að ræða um Pírata sem virðast greinilega telja þetta mál eitthvert það mikilvægasta sem hefur komið á þingpallana (Gripið fram í.) og í þingsal er það nú þannig að öll þeirra umræða fer hér fram án þess að nokkur fulltrúi Pírata hafi mætt á einn einasta fund þar sem þetta mál var til umræðu, ég held að ég muni það alveg rétt, (Gripið fram í.) og spurt viðmælendur nefndarinnar. Viðmælendur voru um 70 talsins í þessu mikilvæga máli.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar verða að finna sér önnur lögfræðileg gögn að vitna í en lögfræðilegt gagn frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vegna þess að í því gagni stendur einmitt að við séum ekki bundin af flokkun virkjunarkosta heldur eingöngu lögum nr. 48/2011, þar á meðal að fyrir liggi faglegt mat á virkjunarkostum og landsvæðum.

Í greinargerð verkefnisstjórnarinnar (Forseti hringir.) stendur að einu kostirnir sem faglegt mat hafi farið fram á séu virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár. Þið verðið að leita annarra lögfræðilegra gagna, hætta þessu mali hér um að það sé verið að brjóta lög og binda málflutning ykkar við eitthvað sem ekki stenst. Þið verðið að fara að viðurkenna sannleikann í þessu máli. (Gripið fram í: Sannleikann!) [Háreysti í þingsal.]