144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Vegna orðaskipta í umræðum áðan þyrfti hv. þm. Vigdís Hauksdóttir að átta sig á því að forsætisnefnd Alþingis er ekki fjölskipað stjórnvald nema í afar takmörkuðum mæli og tilvikum og forseti ræður til dæmis dagskrá þingsins og hefur dagskrárvaldið.

Sú vinna sem liggur að baki ferli rammaáætlunar allt frá því að það fór af stað en þó sérstaklega frá og með lögfestingu aðferðafræðinnar á árinu 2011 og vinnunni á síðasta kjörtímabili er mjög merkileg. Það er enginn vafi á því að í því er fólgið stórt skref fram á við í vinnubrögðum á þessu sviði, enda fylgi menn ferlinu og virði lögin. Það sorglega fyrir Ísland er að við vorum um 20 árum á eftir til dæmis nágrönnum okkar í Noregi með að innleiða þessa aðferðafræði og má velta því fyrir sér hvort hinar oft hörðu deilur á árum áður hefðu ekki verið minni ef við hefðum 20 árum fyrr lögfest vandað ferli af þessu tagi og verið því trú að reyna að komast að bestu faglegum niðurstöðum í eins mikilli sátt og hægt væri um þessi vandasömu mál.

Ég tel að vinnan á síðasta kjörtímabili standist á allan hátt þegar hún er skoðuð, hvað sem bókum líður eða tilvitnunum í þær. Ég fylgdist nokkuð náið með ferlinu sem formaður annars stjórnarflokksins og dáðist að vinnu þáverandi umhverfisráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra og að því hversu vel og farsællega þau mál voru leidd til lykta, borin fram og afgreidd svo í þinginu að lokum. Það er himinn og haf milli þess ferils, sem þá var í gangi og þess hversu trúir og skuldbundnir menn voru lögunum, anda þeirra og aðferðafræðinni, og svo þess sem hér á að fara að gera. Og þótt ekkert annað kæmi til en það að í þinginu á með handafli að færa úr biðflokki yfir í nýtingarflokk og taka þar með endanlega ákvörðun um flokkun á afar umdeildum og viðkvæmum virkjunarsvæðum dugar það eitt og sér til að draga upp grundvallarmuninn á þessu eða hinu, að náttúran fái að njóta vafans ef hann er áfram uppi, ef upplýsingar skortir og gögn, ef vel rökstuddar umsagnir af því tagi koma fram í ferlinu sé hlustað á þær. Það heitir að náttúran njóti vafans, en ég veit auðvitað að hér innan veggja eru enn forneskjur, því miður, sem vilja ekki þá aðferðafræði eða þá hugsun. Það hversu erfiðlega hefur gengið að lögtaka grundvallarreglur umhverfisréttarins, hvað þá koma þeim inn í stjórnarskrá, skýrir kannski það að við erum því miður svo illa sett á Íslandi enn þann dag í dag, á árinu 2015, að við erum með risaeðlur innan um okkur, ekki í stærð talið heldur í hugarfari, sem vilja bara gömlu tímana í umhverfismálum.

Handaflstillaga hv. þm. Jóns Gunnarssonar í þessu máli er ekkert annað en gamli tíminn þar sem á að beita handafli í þágu blindra dólgastóriðjusjónarmiða og náttúran mætir afgangi. Aðrir hagsmunir mæta afgangi. Verndarsjónarmið mæta afgangi. Hagsmunir ferðaþjónustunnar, útivistarfólks og komandi kynslóða mæta afgangi því að þjóðhagslega er ekki glóra í þessu dæmi eins og ég hef vonandi tíma til að koma aðeins inn á síðar.

Þetta eru subbuleg vinnubrögð, herra forseti, og þau eiga ekki að líðast.

Ég ætla aðeins að fjalla um þá virkjunarkosti sem hér eru undir vegna þess að það skiptir máli og ég vil færa fram rök, þó að það sé í sjálfu sér ekki mitt að vinna hina faglegu vinnu, fyrir því að enginn af þessum kostum, og tæpast einu sinni Hvammsvirkjun, eigi enn að fara í endanlega flokkun. Tökum virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár og spyrjum: Hver er staðan þar? Það er byggt á meira en 10 ára, bráðum 15 ára, gömlu úreltu umhverfismati fyrir bæði Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Það viðurkenna allir og sjá sem það hafa skoðað. Allar götur síðan hafa menn reynt að auka við þekkingu sína og bæta með rannsóknum en þó vantar upp á. Það er niðurstaða verkefnisstjórnar.

Varðandi fiskigengdina er rétt að minna á að villti laxastofninn í Þjórsá er einn stærsti og sterkasti laxastofn í Norður-Atlantshafi. Það veiddust yfir 10 þús. laxar í Þjórsá og hliðarám á árinu 2013. Það er stóraukin sjóbirtingsgengd upp Þjórsá og í Þjórsá eru staðbundnir stofnar, bleikja, stórurriði og smáurriði og þannig mætti áfram telja. Þetta er heilt, sérstætt og mjög verðmætt lífríki. Það liggur fyrir að fullkomin óvissa er um hvort meintar mótvægisaðgerðir komi að gagni. Þær hafa sums staðar í heiminum skilað einhverjum árangri en annars staðar mistekist alveg og hvergi í heiminum hefur verið reynt að búa til seiðaveitur eða bjarga göngufiskum upp jökulá. Það væri óþekkt fyrirbæri, hrein tilraunastarfsemi og allir vita að það getur brugðið til beggja vona með hvort það skili nokkrum árangri.

Með Holtavirkjun færu öll stærstu og verðmætustu búsvæðin í Þjórsá því að það er þar á efra svæðinu, á lygna svæðinu frá Búða og niður undir Urriðafoss, sem öll búsvæðin eru. Þar er Kálfá, mesta stangveiðiáin á efra svæðinu og ábyggilega mikilvæg móðir fyrir laxinn úti í Þjórsá sjálfri. Hvernig færi með hana ef Hvammsvirkjun yrði byggð á grundvelli núverandi hugmynda Landsvirkjunar um hönnun? Hún er þannig að allt vatnið fer niður austurkvísl Þjórsár austan við Árnes og er tekið í uppistöðulón við Akbraut en vesturkvíslin, stóra kvíslin, Murneyrarkvíslin, verður svo til tóm þannig að rennslið fer úr 300–400 rúmmetrum niður í kannski 10 rúmmetra sem Landsvirkjun býðst til að hafa þar, en yfirfallið á virkjuninni verður niður þá kvísl þannig að í leysingum og á haustin þegar uppistöðulónin eru orðin full munu mörg hundruð rúmmetrar sturtast niður þennan farveg. Að öðru leyti stendur hann tómur. Það verður ekki hægt að græða hann upp, það mun fjúka úr honum og hvar á laxinn að búa sem og sjóbirtingurinn og bleikjan? Á hann að éta sand og anda að sér lofti? Nei, hann mun ekki gera það. Það er algerlega ljóst að allar virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, Hvammsvirkjun auðvitað með talin þó að hún sé efst, eru stórkostlega áhættusöm umhverfisspjöll í þessum skilningi. Þær eru það. Ég var satt best að segja farinn að trúa því að mönnum dytti ekki framar í hug að fara í Urriðafoss vegna þess að hann er náttúrlega neðstur og hann eyðileggur allt. Það er bara þannig.

Hvernig er staðan hjá Hagavatni? Það er lítt rannsakað, það hafa verið síbreytilegar hugmyndir um hvernig ætti að útfæra þar virkjun. Svo koma menn hingað og segja að þetta væri svo gagnlegt gegn sandfoki, muni hefta það. Já, en ganga ekki flestar hugmyndirnar út á að Hagavatn verði miðlunarlón með milli 5 og 10 metra sveiflu í vatnsborði? Hvað þýðir það? Það þýðir að leirurnar verða þurrar á vorin. Þá verður sandfok og leirfok sem aldrei fyrr. Ef Hagavatn er hins vegar með stöðugu vatnsyfirborði minnkar virkjunin til mikilla muna og verður miklum mun óhagkvæmari þannig að það er sýnd veiði en ekki gefin að það sé jákvætt í umhverfislegu tilliti og ræðst allt af því hvers konar virkjun menn væru þar að hugsa um.

Varðandi Skrokköldu er vissulega hægt að halda því fram að hún sem slík neðan jarðar valdi ekki miklu umhverfisraski, en hún er langt inni á miðhálendinu og hvað mun fylgja henni? Háspennulínur og vegir langleiðina upp undir Vonarskarð inn undir hjarta Vatnajökulsþjóðgarðs og miðhálendisins og þá er farið að styttast norður af, er það ekki? Í upphafi skyldi endinn skoða þannig að það eru sterk rök fyrir því að skoða það mun betur að fara af stað með allar þessar fjórar virkjanir og í raun fimm sem ég hef hér nefnt.

Ég hef aðeins nefnt til umræðunnar spurninguna um þjóðhagslegt samhengi þessara hluta og vísa þar meðal annars í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar sem leggst alfarið gegn þessum vinnubrögðum. Af hverju? Af því að þetta er ekki í samræmi við hugmyndir manna um það hvernig við verndum og reynum að nýta náttúruna hóflega — í þágu hvers? Stærstu atvinnugreinar Íslands þegar kemur að gjaldeyrisöflun og miklu munar núna ár frá ári. Ég reiknaði það út í höndunum og setti reyndar í blaðagrein sem menn geta lesið ef þeir vilja á vefritinu Kjarnanum um hvernig þessi mál horfa núna á árinu 2015. Vægt reiknað verða brúttógjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar 350 milljarðar á þessu ári. Hún hefur vaxið um ein 27% fyrstu fjóra mánuði þessa árs og um 20% plús undanfarin þrjú ár. Hún er orðin langstærst í veltu hvað varðar gjaldeyrisöflun. Hún skilur eftir um 80% af tekjum sínum í íslenska hagkerfinu þannig að nettógjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni verða sennilega um 280 milljarðar á þessu ári. Ef sjávarútvegurinn gerir ívið betur á þessu ári en í fyrra gætu brúttótekjur hans orðið um 280 milljarðar. Hann skilur svipað hlutfall eftir þannig að nettótekjur frá honum gætu orðið 225 milljarðar.

En hvað fáum við úr álinu? Hvað fáum við úr stóriðjunni? Jú, ef við gefum okkur að sú grein geri líka örlítið betur en í fyrra, skili kannski um 230 milljarða gjaldeyristekjum brúttó, verða því miður ekki nema 35% af því eftir í íslenska hagkerfinu. Það gerir 80 milljarða. Það eru 80 milljarðar á móti 280. Það er vægið á þennan mælikvarða milli ferðaþjónustu og stóriðju. Er ekki hér verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, að ganga algerlega gegn skýrri umsögn stærstu eða verðmætustu atvinnugreinar þjóðarinnar hvað þetta varðar? Má ég þá minna á að ef það er eitthvað sem er Íslandi efnahagslega mikilvægt um þessar mundir og langt fram í tímann eru það gjaldeyristekjur. Eða við hvað er vandinn um afnám hafta bundinn? Hann er bundinn við greiðslujafnaðarvanda og til að sigrast á honum þurfum við jákvæðan greiðslujöfnuð. Við þurfum allar þær gjaldeyristekjur sem við getum skapað okkur og helst með sem minnstum tilkostnaði og fjárfestingum. Þar hefur ferðaþjónustan mikla yfirburði og það er yfirgengilegt að heyra stóriðjumálflutninginn þegar maður horfir á þetta í ljósi líðandi stundar. Hvar hafa þessir menn verið að minnsta kosti þrjú síðustu árin, hvar hafa þeir yfirleitt verið frá því að þeir luku grunnskóla þegar þeir tala svona um stöðu mála, hvort sem er í umhverfislegu eða þjóðhagslegu samhengi?

Örfá orð ætlaði ég að hafa um kenninguna um rafmagnsleysið sem hv. þm. Jón Gunnarsson og gott ef ekki hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafa haft hér uppi við okkur, að það sé svo voðaleg vá fyrir dyrum vegna þess að það skorti rafmagn. Hvergi hef ég orðið var við það. Ekki veit ég til þess að neinum hafi verið vísað frá og það hefur heilmikið bæst við í rafmagnsframleiðslu undanfarin missiri og horfur eru á og vitað að það mun halda áfram á næstu missirum. Staðan er þannig að stækkun Hellisheiðarvirkjunar lauk á síðasta kjörtímabili og afköst hennar jukust verulega. Nú man ég ekki alveg áfangana en hún á að geta farið hátt í 300 megavött ef hún er keyrð á fullum afköstum og stór hluti þess hefur bæst við með stækkunum á allra síðustu árum. Nú er hún að sækja sér gufu í Hverahlíð og eftir því sem ég best veit þýðir það að hún mun aftur fara að keyra á fullum afköstum og framleiðsla hennar aukast um nokkra tugi megavatta á nýjan leik.

Búðarhálsvirkjun, virkjun upp á 92–95 megavött, kom í gagnið fyrir einu eða einu og hálfu ári. Henni var ætlað að standa á bak við stækkunina í Straumsvík en nú hefur Rio Tinto Alcan afþakkað nema lítinn hluta af þeirri orku, enda hefur hún þar með verið laus til ráðstöfunar í aðra samninga.

Það er byrjað að byggja Þeistareykjavirkjun og þar verða komin í gagnið 45 megavött innan tveggja og hálfs árs og því verkefni er þannig háttað að það er boðið út og gengið frá möguleikum á tvöföldun samtímis þannig að Landsvirkjun verður, ef svo ber undir, mjög fljót að tvöfalda framleiðsluna þar í 90 megavött og á marga fleiri stækkunarmöguleika.

Stækkun Búrfellsvirkjunar er meira og minna tilbúin sem framkvæmd, ákaflega hagkvæm, ekki nokkur deila um hana í umhverfislegu tilliti, enda sáralítið viðbótarrask. Þar getur í afli komið allt upp í 120 megavött, ef ég man rétt, þó að ársframleiðslan í gígavattstundum endurspegli það ekki að fullu vegna þess hvernig henni verður beitt.

Með virkjun Blönduskurðanna, sem ég veit ekki betur en að séu sömuleiðis mjög langt komnir í þeim skilningi að það er ekki ástæða til að ætla að það þurfi eitthvert viðamikið umhverfismat eða annað slíkt, bætast við nokkrir tugir megavatta.

Er ekki Landsvirkjun að undirbúa 100 megavatta vindmylluþjóðgarð og jafnvel frekar tvo en einn, annan á Hafinu við Búrfell og hinn við Blönduvirkjun? Það er að minnsta kosti allt að því ef svo ber undir.

Svo er stækkun Kröflu í framhaldi af stækkun Þeistareykjavirkjunar og þannig gæti ég lengi áfram talið. Þetta eru bara þeir virkjunarkostir sem Landsvirkjun er með undir sínum radar. Síðan hafa bæst við þó nokkrar smávirkjanir og stækkanir eldri virkjana. Þar má nefna Mjólkárvirkjun sem var tekin í gagnið stækkuð og endurbætt fyrir skömmu. Enn fremur má nefna virkjun í Köldukvísl á Tjörnesi upp á 2 megavött og nokkrar vindmyllur frá einkaaðilum. Það safnast þegar saman kemur enda er veruleikinn sá að það er enginn rafmagnsskortur á Íslandi og það er búið að ganga til samninga eða verið að undirbúa samninga við þó nokkuð marga millistóra notendur orku. Það er að sönnu rétt að það er ekki hægt að mæta öllum í hvelli. Við getum ekki tekið inn á okkur tvö, þrjú risaálver en það virðist vera hugmyndin.

Og þá kem ég aftur að hugmyndafræðinni. Hvað er verið að boða okkur með þessu tali? Það er verið að segja: Förum aftur í gamla tímann þar sem alltaf var í boði nóg orka og helst fyrir fram á lager handa hverjum sem vildi koma og kaupa hana ódýrt. Það ánægjulega hefur nefnilega gerst að markaðurinn hefur breyst úr því að vera kaupendamarkaður yfir í að verða seljendamarkaður. Það er fínt, það er gott fyrir Ísland að það sé meiri eftirspurn eftir orkunni en við erum endilega tilbúin að selja á hverjum tíma því að þá hækkar verðið og þá erum við í betri samningsstöðu. Það er umhverfið sem okkur hefur langað að komast í, en nei, nú segja talsmenn meiri hlutans: Förum aftur í hitt ástandið. Við eigum að virkja miklu meira þannig að hér verði helst offramboð á orku sem við neyðumst svo til að selja með afslætti. Þannig er hugsunarhátturinn og þannig er talað. Svo hafa menn ekki rétt fyrir sér, þeir þekkja ekki einu sinni staðreyndir mála.

Það alvarlegasta við þetta mál er að hér ætla menn að fara að fremja gjörð sem er klárlega brot á anda og inntaki laganna um rammaáætlun. Við getum þrasað um hið lagalega gráa svæði en það er algerlega klárt og hafið yfir allan vafa að þetta er í andstöðu við anda laganna sem er sá að byggja á bestu fáanlegu upplýsingum og vönduðu faglegu mati sem hefur verið lokið af til þess bærum sérfræðingum (Gripið fram í: Eins og …) en það á ekki við núna. (JónG: Alveg eins og í …) Þetta er ófriðaraðgerð sem færir okkur aftur á bak. Öll umhverfisverndarsamtök landsins eru á móti þessu, útivistarsamtök og ferðasamtök. (Gripið fram í: Vilja ekki …) Ferðaþjónustan er á móti þessu og fjölmargir aðrir aðilar sem menn ættu að hlusta á. Ég held að aðilar vinnumarkaðarins séu meira og minna á móti þessu líka því að þeir átta sig á því að þetta mun spilla andrúmsloftinu og draga úr líkunum á því að í sæmilegum friði verði eitthvað á komandi árum flokkað í nýtingarmöguleika því að þetta setur allt í loft upp og færir okkur 10–20 ár aftur í tímann. Þetta eru vond tíðindi í þeim skilningi að í staðinn fyrir að okkur miði áfram í rétta átt, t.d. með því að nýju náttúruverndarlögin taki gildi með varúðarreglum umhverfisréttarins, t.d. með því að við fáum loksins grundvallarreglur umhverfisréttarins inn í stjórnarskrá, erum við allt í einu búin að beygja út af og farin til baka í gagnstæða átt, í gamla handaflið. Það verður ekki baráttulaust því að það er nefnilega meira í húfi en bara málatilbúnaðurinn í þessu eina máli. Ég bið stjórnarliða, þá sem á annað borð eru móttækilegir, að hugsa sig um. Vilja þeir að ríkisstjórnin sem þeir styðja eða ætla að styðja fái það orð á sig á spjöldum sögunnar að hún hafi rifið Ísland aftur á bak í þessum efnum, að hún hafi spillt algerlega þeim brothætta friði sem meðal annars var reynt að búa til með ferlinu um rammaáætlun? Helsár af átökunum um Kárahnjúka og margt fleira vorum við þó saman að reyna að komast í rétta átt. Og má ég minna á að lögin voru samþykkt án mótatkvæða? Það var þó það mikill friður um að færa sig yfir í þessa aðferðafræði.

Það er mikið undir og virðulegur forseti og stjórnarmeirihlutinn verða að fara að taka það alvarlega að það er fullur þungi á bak við kröfu okkar um að þessi breytingartillaga hverfi af dagskrá og helst málið allt og það verður ekki gefið eftir baráttulaust.