144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir glimrandi ræðu og mjög mikilvæga vegna þess að það var meðal annars rakið mjög vel hvað er í húfi þegar þessir virkjunarkostir eru annars vegar, hvaða náttúruverðmæti eru þarna í spilunum og um hvað við erum að tala.

Í ljósi frammíkalla hv. formanns atvinnuveganefndar sem telur að faglegt mat á þessum virkjunarkostum hafi farið fram, og það er ágreiningur sem er að teikna sig svolítið upp hérna, virðist sem fylgismenn þessarar tillögu telji að faglegt mat hafi farið fram og mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann skilji þessi orð í greinargerð tillögunnar:

„Í niðurstöðum verkefnisstjórnar kemur jafnframt fram að hún telji að til þess að hægt verði að taka afstöðu til Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar þurfi að liggja fyrir upplýsingar …“ sem þar eru raktar. (Forseti hringir.) Hvernig skilur hv. þingmaður orðalagið „til þess að hægt verði að taka afstöðu til“? Má skilja þessi orð í greinargerðinni svo að faglegu mati sé lokið, að það hafi farið fram? Getur hv. þingmaður brugðið birtu frá sínum sjónarhóli á þetta?