144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mitt svar er það að ef við ætluðum að bæta umtalsverðum viðbótarframkvæmdum og fjárfestingum í virkjunum inn á næstu missiri og enn frekari iðjuverum til að kaupa þá orku ættum við heldur betur að fara að hugsa okkar gang. Værum við þá ekki bara að endurtaka hættuna frá ofþensluárunum þegar Kárahnjúkavirkjun og stækkun á Grundartanga var troðið inn í hagkerfið á örfáum missirum, fjárfestingu sem nam um hálfri landsframleiðslu ef ég man rétt? Auðvitað klóruðu allir erlendir sérfræðingar sér í hausnum og spurðu: Hvernig ætlið þið að koma í veg fyrir að það kvikni í hagkerfinu með því að dæla þessum ofboðslegu viðbótarfjárfestingum ofan í þá þenslu sem fyrir er? Hið sama gæti orðið upp á teningunum hér. Eru ekki í burðarliðnum ein þrjú ef ekki fjögur kísilver, stækkun í gagnaverum og fleiri litlir og meðalstórir iðnaðarkostir á næstu árum og nokkurn veginn séð fyrir orku sem í þetta þarf? Er það ekki nóg í bili? Ég held það, meira en það.

Svo vil ég segja varðandi það hvort faglega matið hafi farið fram (Forseti hringir.) að ég mundi segja að það stæði yfir. Málið er nefnilega að það stendur yfir faglegt mat á virkjunarkostum í neðri hluta Þjórsár sem reyndist full þörf fyrir.