144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Enda hefur nú komið í ljós að ekki eru margir aðrir á þessari skoðun, a.m.k. af þeim aðilum vinnumarkaðarins sem rætt hefur verið við.

En að öðru, hv. þingmaður hefur góða þingreynslu og það sér hver maður að við erum í miklum vanda í þingstörfunum þar sem deilur eru uppi. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér hvernig við getum fengið hæstv. ríkisstjórn eða forustumenn hennar til að stöðva þessa umræðu, stuðla að sátt og taka hingað inn málefni sem skipta miklu máli. Sér hv. þingmaður fyrir sér hvernig leysa megi þann vanda sem þingstörfin eru í og forseti hefur ekki komið með tillögu um að leysa?