144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins fá að bæta við umræður okkar áðan um iðnaðaruppbygginguna. Það má enginn skilja mig svo að ég sé andvígur því að hér haldi til dæmis áfram að byggjast upp og þróast fjölbreyttur og helst sem hátæknivæddastur iðnaður sem að einhverju leyti þarf á orku að halda. Ég tel auðvitað þá þróun sem hefur orðið að undanförnu mjög spennandi, að við förum inn í kísil- eða sólarkísiliðnað að einhverju leyti, að hér byggist upp gagnaver og annað í þeim dúr, lítil og meðalstór fyrirtæki eru algerlega samkvæmt mínum kokkabókum. Við höfum hins vegar ekkert með það að gera að vekja upp gömlu dólgastóriðjudraugana.

Hvernig á að leysa úr þeirri úlfakreppu sem þingstörfin eru komin í og vandamálin sem þar hafa hrannast upp? Hvað segir reynslan manni í því? Ætli það sé ekki bara hið fornkveðna að orð séu til alls fyrst? Menn verða að byrja að tala saman. Ég skal gerast sá spámaður að segja að sá veruleiki muni renna upp fyrir ríkisstjórnarflokkunum þegar þeir fara þá kannski að hugsa að það sé í þeirra þágu umfram allt annað að (Forseti hringir.) þingið geti lokið störfum með sómasamlegum hætti og afkastað einhverju. Þeir eru að eyðileggja fyrir sjálfum sér með þráhyggju um þetta mál. Verði þeim að góðu, það verður að vera þeirra hausverkur en ekki minn.