144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:36]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum á svipuðum slóðum í þessu. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að endurskoða ferlið með tilliti til þess að skýra formkröfur.

Mig langar í seinni spurningu að koma að því hvernig við metum þetta faglega mat. Hv. þingmaður talaði af mikilli þekkingu um þá kosti sem um er að ræða í neðri hluta Þjórsár. Ég vísa enn og aftur til umsagnar og nú til umsagnar Landsvirkjunar. Þar kemur fram að þau gögn sem lögð hafa verið fram vegna Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar eru vel umfram þær kröfur sem gerðar eru til umfjöllunar í rammaáætlun, enda mati á umhverfisáhrifum lokið fyrir þær virkjanir. Ég spyr hv. þingmann: Á hvaða gögnum eigum við (Forseti hringir.) að byggja í þessu?