144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir það að ræða hv. þingmanns hafi verið góð. Mér fannst hún full af tvískinnungshætti og gömlum þekktum frösum um gömlu dólgastóriðjudraugana og sýna okkur í hnotskurn að þingmaðurinn velur að draga alltaf nýjar víglínur í þessum málum ef miðað er við ummæli hans um Þjórsárvirkjanir hér fyrir nokkrum árum þar sem hann rómaði mjög þessa virkjunarkosti og taldi þá vera þá bestu og miklu betri en aðra sem þá voru til umfjöllunar.

Ég vil af því tilefni spyrja hv. þingmann, virðulegi forseti, hvað honum finnist um þá virkjunarkosti sem undir hans forustu voru settir í nýtingarflokk til þess að fara að undirbúa virkjunarframkvæmdir á síðasta kjörtímabili, virkjunarkosti eins og Sandfell og Sveifluháls í Krýsuvík, jarðvarmavirkjun, Eldvörp á Svartsengissvæði, Hverahlíð og Meitilinn. Það er áhugavert að heyra frá þingmanninum hvort hann telji það þá vænlegri og betri virkjunarkosti en þá virkjunarkosti sem hér um ræðir í neðri hluta Þjórsár.