144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að maður á ekki að hæla sjálfum sér en ég hallast að því að þetta hafi verið góð ræða hjá mér úr því að hún fór svona illa í hv. þm. Jón Gunnarsson. Ég er bara að verða nokkuð stoltur af ræðunni. Ég hef greinilega hitt hann á réttum stöðum og ekki grætir það mig.

Það er misskilningur hjá hv. þingmanni að við höfum í tíð síðustu ríkisstjórnar komið nálægt því að færa eitt einasta svæði í nýtingarflokk. Þau komu þannig flokkuð frá verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar. Ef hv. þingmaður telur að þessar virkjanir hefðu átt að fara yfir í bið skal ég ekki endilega vera honum ósammála um það. Ekki hefði það hryggt mig þótt menn hefðu jafnvel fært fleiri kosti, þar á meðal á Reykjanesi, yfir í bið en við þessari flokkun var ekki hróflað í tíð síðustu ríkisstjórnar frá því sem kom út úr ferlinu. Þannig er það og það er alger misskilningur að við höfum fært þær yfir í nýtingarflokk.