144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hafi einfaldlega verið þannig að þeir virkjunarkostir, sex að tölu ef ég man rétt, sem ákveðið var að hafa í biðflokki hafi verið þeir sem veigamestu og þyngstu röksemdirnar komu fram fyrir því að slíkt væri gert. Það hefur nú sannast rétt vera í öllum tilvikum nema þá kannski helst hvað varðar Hvammsvirkjun. Til að halda því líka til haga minnir mig að breytingar hafi verið gerðar á að minnsta kosti afmörkun svæða á Reykjanesinu þar sem eitthvað af háhitasvæði við Sveifluháls fór í bið. Ég man þetta ekki svo nákvæmlega en aðrir hér í salnum kunna það betur. Það var auðvitað farið yfir það á Reykjanesinu og í einu tilviki (Gripið fram í.) var gerð breyting. Þetta var niðurstaðan frá verkefnisstjórn. Ég get haft mínar persónulegu skoðanir á hverjum og einasta af þessum virkjunarflokkum ef hv. þingmanni finnst það skipta rosalega miklu máli að vita það. (Gripið fram í.) Ég hefði verið alveg tilbúinn til þess og hefði fagnað því í sumum tilvikum að sum þessara svæða hefðu verið í bið (Gripið fram í.) svo því sé svarað algerlega skýrt.

Varðandi seiðaveiturnar liggur fyrir að þær hafa skilað mjög misjöfnum árangri. Sums staðar hafa þær gert gagn (Forseti hringir.) eins og ég sagði í ræðu minni en í öðrum tilvikum hafa þær valdið miklum vonbrigðum, jafnvel svo að stíflur hafa verið rifnar niður vegna þess að það kom í ljós að seiðaveitur virkuðu ekki, t.d. í Ástralíu eða Tasmaníu.