144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég lýsti því yfir að ég væri allhissa á að sjá ekki fleiri af hv. þingmönnum sem greiddu atkvæði með kvöldfundi af mikilli ákefð í að ræða þetta mál, en þeir eru ekki sjáanlegir og ég lýsi furðu minni yfir því. Hins vegar er ég sjálf enginn sérstakur aðdáandi kvöldfunda, geri mér grein fyrir því að þeir eru stundum nauðsynlegir en þá hefði maður gjarnan viljað að þeim rökum sem hér hafa verið færð fram sé svarað. Hér er ítrekað búið að benda á lagaleg álitamál sem menn hunsa og líka þá athugasemd sem hefur verið varpað fram um að hér séu ekki iðkuð góð vinnubrögð. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann svara því af hverju menn kjósa að hlusta ekki á fagmenn. Menn bera við yfirvofandi rafmagnsskorti sem er búið að hrekja hér í mörgum ræðum og að það þurfi að snúa í gang hjólum atvinnulífsins sem er líka búið að hrekja í mörgum ræðum.

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af því (Forseti hringir.) að fundir seint að kvöldi auki ekki einbeitingu og skerpu í þessum umræðum og svo sannarlega er meiri skerpu þörf. Ég ítreka því spurningu mína sem ég hef ekki fengið svarað frá virðulegum forseta: Hvað ætlar hann að halda þessum fundi lengi áfram? Það hlýtur að vera eðlilegt að við fáum svör við því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)