144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég set út á þá fundarstjórn að fá ekki svör um tímalengd fundarins. Ég hef ekki krafist þess að hæstv. forsætisráðherra sé viðstaddur. Ég vil bara fá svarið skriflegt frá honum vegna þess að ég tel að hann hafi engan áhuga á að koma hingað og ræða við okkur og þegar hann hefur látið það eftir sér að koma hingað inn í þingsal hefur því miður afskaplega lítið komið út úr því, en hann hefur þó nokkra aðstoðarmenn og ég vildi gjarnan að þeir tækju saman fyrir okkur það sem á að koma út úr samþykkt þessarar rammaáætlunar sem verður til þess að leysa kjarasamningana.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í viðtal við Magnús Pétursson ríkissáttasemjara þar sem hann segir að hann hafi ekki séð önnur eins verkföll árum saman og ekki síðan fyrir hrun:

„Við sjáum átök hér um fjölmörg málefni, ekki bara um kaupið heldur um ýmis önnur atriði í samfélaginu. Það er skipting auðlindanna, arðurinn af auðlindum, hvernig á að skipta því. Það eru átök eða ágreiningur milli hópa, hver er betur settur en annar. Þannig að það er ágreiningur um fjölmargt í samfélaginu, sem að ég er alveg sannfærður um að hefur áhrif á stöðu kjaraviðræðna.“

Og ríkisstjórnin leggur ekki sitt af mörkum til að leysa vandann.