144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hefur forseti ekki áhyggjur af því að það er ófriður alls staðar í samfélaginu? Það er ófriður og átök á vinnumarkaði og ríkisstjórnin virðist vera komin í þá stöðu að hvar sem hún drepur niður fæti herðir hún átökin. Hún eykur átökin hérna í þinginu, hún eykur átökin gagnvart þeim sem eru í verkfallsaðgerðum á vinnumarkaði og herðir alla hnúta. Forseti hefur vald á dagskrá þingsins, ekki ríkisstjórnin, þannig að forseti hefur í hendi sér að hafa að minnsta kosti þau áhrif á umræðuna í þinginu að auka ekki beinlínis ófriðinn í samfélaginu.

Það kom fram í viðtali við ríkissáttasemjara í fréttum í kvöld að átökin snerust ekki bara um kaup og kjör heldur líka áhyggjur almennings yfir skiptingu auðlindanna, (Forseti hringir.) auknu misrétti og auknum ójöfnuði í samfélaginu. Forseti getur haft áhrif á þetta með því að stýra dagskránni til betri vegar og taka þetta mál af dagskrá.