144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki alveg sammála því að við séum komin voðalega langt frá þessu hugarfari. Þetta hugarfar hefur endurspeglast hér á þingi undanfarið og í öllu framferðinu í kringum rammaáætlun og þess vegna hefur mér liðið eins og ég væri komin aftur í þennan tíma. Ég upplifi það varðandi þá vegferð sem var farin á síðasta kjörtímabili og var mikill og langur aðdragandi að, 20 ára aðdragandi, t.d. með rammaáætlun, að við séum að fara aftur á bak og það er hægt að fara mjög hratt aftur á bak. Og bara það að hæstv. forsætisráðherra Íslands láti sér detta í hug að nota þessar kjaradeilur sem eins konar gísl til að þvinga þetta mál hér í gegn er með ólíkindum. Ég vil bara minna á að þingið er tilbúið til þess að hleypa upprunalegu þingsályktunartillögunni í gegn. Það er þessi breytingartillaga frá meiri hluta atvinnuveganefndar sem við erum að sporna við.