144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir hennar ræðu. Hún var sérstök þar sem hv. þingmaður byrjaði á því að tjá það að henni liði eins og hún væri í landi hinna klikkuðu karlmanna og las síðan upp úr bók eftir Andra Snæ Magnason. Ég ætla ekki að tjá mig um þá bók eða kannski inntakið í því efni sem hún las upp, og þó. (BirgJ: Grein.)— Grein. Rithöfundar eins og Andri Snær Magnason eru auðvitað að vekja okkur til umhugsunar, ég læt þar við sitja. En hv. þingmaður talaði hér um ál og álbræðslur, vitnaði í þessa grein og þetta neikvæða ívaf sem er á því brjálæði, því æði sem lýst er. Ég vil þó tala um þennan orkuáliðnað á jákvæðari hátt og benda á að sá klasi sem hefur myndast í kringum þennan iðnað, sem hefur hér verið virkjaður með handafli, skapar um það bil 10% af þeirri árlegu verðmætasköpun sem við tölum sem verga landsframleiðslu. Jafnframt eiga sér stað í þessari þyrpingu klasans viðskipti við nánast allar atvinnugreinar í landinu eða er í snertingu við þær.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvaða hugmyndir (Forseti hringir.) hún hefur um framtíðaruppbyggingu í þessari atvinnugrein.