144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Því miður get ég ekki spurt þingmanninn að því hvað hann átti við, ég veit ekki alveg hvort þingmaðurinn var að leggja til að við settum upp fleiri álver eða ekki. Mér þætti það mjög miður. Langflestir ferðamenn sem koma hingað hafa í raun ekki hugmynd um þá stóriðjustefnu sem þetta land stendur fyrir, það er ekki hluti af auglýsingapakkanum erlendis. Það er talað um að Ísland sé hreint og tært og best og allt þetta, en það er það kannski ekki sums staðar á landinu. Það er bara staðreynd.

Varðandi hnútinn sem við erum komin í með breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar þá verður hann ekkert leystur hér. Það er fagnefndin sem á að sjá um að leysa þann hnút. Það er allt í lagi að bíða aðeins með þetta. Við skulum taka þingsályktunartillöguna sem hér liggur fyrir og leyfa fagnefndinni sem ákveður hvað á að fara í nýtingu og hvað á að fara í vernd að ganga frá sinni vinnu á þann máta sem henni var upprunalega falið.

Ramminn. Ef við gerum þetta svona þá er sá rammi sem við vorum búin að smíða okkur horfinn, þá erum við bara byrjuð upp á nýtt. Ég held að þau átök sem hafa verið hér í samfélaginu um umhverfismálin — ég held að enginn vilji fara aftur á þann stað. En það verða mikil átök. Er ekki nóg komið? Erum við ekki búin að vera í nægilega miklum átökum um allt? Hvenær ætlum við að finna eitthvað sem við getum verið sammála um að vinna sameiginlega að? Getum við ekki í það minnsta gert það áður en farið er út í þetta? Ég vil að þetta mál verði tekið út af dagskrá af því að það veldur svo miklum (Forseti hringir.) titringi, ekki hér, heldur úti í samfélaginu. Ég vil að við tökum það út af dagskrá og leyfum þessari …