144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að kanna það hér hvort menn séu ekki í alvörunni til í að hætta þessum þingfundi núna og taka til við þingstörfin á morgun þar sem hæstv. forsætisráðherra gefur okkur skýrslu um stöðuna á vinnumarkaði. Við sjáum í fréttum kvöldsins að hæstv. forsætisráðherra er algjörlega ótengdur því sem þar er að gerast. Hann er algjörlega ótengdur kröfunum sem þar eru uppi. Það kemur líka fram í fjölmiðlum í kvöld að það eru tvær vikur í stærsta verkfall Íslandssögunnar, 65.000 manns munu leggja niður störf eftir tvær vikur, stærsta verkfall Íslandssögunnar. Og forsætisráðherra veit ekkert hvað er að gerast. Hann veit ekkert hvað er að frétta af vinnumarkaði, en heldur hér innblásnar ræður um að rammaáætlun og breytingar á henni og eyðilegging (Forseti hringir.) séu lykillinn að þessu öllu saman, lausnin. (Gripið fram í.) Þetta kallast hneyksli.