144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvað við eigum að vera að gera hérna. Það er næstum því enginn í salnum til þess að ræða málið efnislega. Við höldum þingfund. Nú er komið fram yfir miðnætti. Það eru nefndafundir í fyrramálið. Það er ljóst að eini tilgangurinn með þessum fundi er að draga úr minni hlutanum móðinn. Við þekkjum öll hvernig þetta ferli virkar. Það virkar þannig að á meðan minni hlutinn hangir hérna fram eftir nóttu í boði meiri hlutans þá ýmist situr hann þarna — (Gripið fram í: Meiri hlutinn er hér.) meiri hlutinn er þarna, hv. 5. þm. Reykv. n. situr þarna og slappar af fyrir okkur hina syndarana, eins og kom fram í góðri kvikmynd. Mér finnst alveg kominn tími á að fara að skoða það að taka smá tillit til nefndafundanna í fyrramálið. Ég sagði það einhvern tímann í dag að ég mundi byrja að kvarta um miðnætti. Það er komið yfir miðnætti þannig að það er kominn tími til að byrja að kvarta.