144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vona og held, býst við, að hinir fjölmörgu áhorfendur hinnar sívinsælu Alþingisrásar séu farnir að sjá að ákveðið þema er hér í gangi. Hæstv. forseti er síendurtekið spurður spurninga — ég hef tekið þátt í því og það eru að mínu viti málefnalegar og mikilvægar spurningar — en það fást aldrei svör. Svona er Alþingi í dag. Svona eru störf þessa þings. Þá verður maður bara að halda áfram að spyrja og reyna kannski að spyrja einfaldari spurninga sem ætti að vera auðveldara að svara. Mín spurning að þessu sinni er einfaldlega þessi: Hvað ætlar hæstv. forseti að láta fundinn standa lengi?

Ég vil vekja athygli á því að það mál sem hér er til umræðu, um það hvort eigi að virkja í Urriðafossi eða annars staðar í neðri hluta Þjórsár, er til umfjöllunar annars staðar. Það er til umræðu á löglegum vettvangi verkefnisstjórnar, þannig að það er algjör óþarfi fyrir okkur að funda hér fram á nótt um það mál.