144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Fátt er um svör. Ég hjó eftir því að forseti tilkynnti áðan um dagskrártillögu sem verður borin upp við upphaf fundar á morgun, rétt eins og við gerðum í morgun. Það var málefnaleg tilraun okkar í minni hlutanum til að koma vitinu fyrir meiri hlutann, nota eitt af þeim verkfærum sem við höfum í okkar verkfæratösku til að reyna að hafa áhrif á þau mál sem hér eru til umræðu. Búast má við því, svo maður reyni að sjá fyrir sér hvernig framhaldið verður, að sú tillaga verði felld af hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans sem eru ekki hér í kvöld eða alla vega mjög fáir þeirra. Síðan muni fara fram umræða um málið sem yrðu, eftir því sem mið er tekið af deginum í dag, fimm ræður. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað eitthvað sem blasti við í upphafi (Forseti hringir.) síðustu viku. Það er algerlega að ákvörðun meiri hlutans í þinginu að þetta sé með þessum hætti og algerlega andstætt vilja minni hlutans.