144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er búið að lýsa eftir hæstv. forsætisráðherra í allt kvöld og margsenda honum skilaboð um að nærveru hans sé óskað en ekkert bólar á honum. Þá vakna þær grunsemdir hjá mér að ég hafi rétt fyrir mér að hæstv. forsætisráðherra sé kvöldsvæfur, því það hlýtur að vera eina skýringin. Hann er hér í bænum. Við höfum skilning á því og höfum sýnt því umburðarlyndi að hæstv. umhverfisráðherra á að sögn óhægt um vik að vera hér mikið, þar af leiðandi höfum við ekki, a.m.k. ekki ég, gert kröfur um að hún sé við alla umræðuna þótt það væri fullkomlega málefnalegt og gilt. En að enginn hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar skuli láta sjá sig hérna gengur auðvitað ekki. Það er lágmark að einhver sé hér sem tali fyrir ríkisstjórnina, því þetta er nú einu sinni stjórnartillaga þótt hún sé auðvitað afbökuð með breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar. Eða er tillagan munaðarlaus? Er þetta orðið að þvílíku vandræðamáli hjá hæstv. ríkisstjórn að enginn vill nálægt þessu koma lengur? Og eini maður sem gengur í skítverkin enn þá er hv. þm. Jón Gunnarsson? Það er von að maður spyrji.

Síðan verð ég að segja, frú forseti, að nú finnst mér (Forseti hringir.) hæstv. forseti vera farinn að skulda okkur svör. Það hefur verið venjan að forseti hlusti kannski á nokkra þingmenn, en þegar þeir bera allir fram sömu (Forseti hringir.) spurninguna: Hvenær lýkur þessum fundi? þá ber forseta að svara fyrr eða síðar.