144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir er sannarlega fremst okkar sem hér sitjum varðandi bókmenntir samtímans og hún á auðvitað að vita það að ölvaðir af svefnleysi hafa menn skrifað bestu samtímabókmenntirnar. (Gripið fram í.) Þannig að ég er ósammála henni varðandi þann þáttinn. Hins vegar tek ég undir með henni þegar hún hrósar hæstv. forseta fyrir það að hafa þó að minnsta kosti svarað spurningum. Það hafa ekki allir gert hér í kvöld. Hæstv. forseti hefur skorið sig frá þingmönnum stjórnarliðsins að því leyti til að hún svarar þó. Það hefur til dæmis hv. þm. Jón Gunnarsson, situr hér í afherbergi, ekki gert í kvöld. Ég flutti ræðu fyrir allmörgum tímum og varpaði til hans tveimur spurningum. Hv. þingmaður hefur ekki svarað þeim. Ég geri því helst skóna að það sé vegna þess að hann sé orðinn örmagna af svefnleysi og þreytu. Þess vegna hvet ég hæstv. forseta til að slíta fundi og leyfa hv. upphafsmanni þessarar umræðu, Jóni Gunnarssyni, þingmanni og formanni atvinnuveganefndar, að fara heim og hvíla sig til þess að við getum átt við hann vitrænar samræður á morgun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Bjartsýnn.)