144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, nr. 13/141, sem er að finna á þskj. 273, mál nr. 244. Við ræðum nú þessa þingsályktunartillögu í síðari umferð með nefndaráliti og breytingartillögum frá meiri hluta og tveimur nefndarálitum frá minni hluta, annað þeirra er með frávísunartillögu. Lagt er til í upphaflegri tillögu að sú breyting verði á áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða að Hvammsvirkjun færist úr biðflokki í nýtingarflokk. Tillagan var upphaflega lögð fram á 143. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga.

Virðulegi forseti. Í samræmi við lög um rammaáætlun, nr. 48/2011, skal á fjögurra ára fresti, eða að minnsta kosti ekki sjaldnar, leggja slíka tillögu fram þar sem lagt er mat á vernd og nýtingu landsvæða og áhrif nýtingar og verndar á efnahag, umhverfi og samfélag. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvæga leið stefnumótunar og umfjöllun um hvort nýta megi einstök landsvæði til öflunar orku eða hvort megi eða öllu heldur eigi að vernda þau eða kanna frekar. Mikilvæg leið til stefnumótunar segi ég, virðulegi forseti, því að hér er um að ræða spurningu um lífskjör hingað til og bætt lífskjör til framtíðar, atvinnumál, atvinnuuppbyggingu, framtíðarafkomu og kjaramál. Ég gleymi örugglega einhverjum þáttum í þessari upptalningu. Þetta er stórt stefnumótunarmál og snertir marga þætti mannlífsins. Þeir kostir sem eru í stöðunni eru sú flokkun sem við vísum gjarnan til, þ.e. orkunýtingarflokkur, biðflokkur og verndarflokkur.

Ef við skoðum ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um þá var hinn 14. janúar 2013 samþykkt þingsályktun um slíka áætlun verndar og orkunýtingar. Tóku þá gildi ákvæði laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, fyrir utan 1.–3. gr. laganna sem höfðu þá þegar tekið gildi við samþykkt þeirra 16. maí 2011.

Þriðji áfangi verndar- og orkunýtingaráætlunar hófst með skipan verkefnisstjórnar af hálfu þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem skipaði stjórnina 25. mars 2013. Þegar í júlí sama ár bætti hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson við erindisbréf stjórnarinnar með þeim tilmælum að forgangsraða vinnu sinni þannig að hraðað yrði faglegu mati á þeim sex virkjunarkostum sem færðir voru úr nýtingarflokki í biðflokk eftir umsagnarferli 2. áfanga áætlunarinnar og þeim tveimur kostum sem ekki höfðu fengið fullnægjandi mat fyrri verkefnisstjórnar, þ.e. Hagavatni og Hólmsá við Atley. Þetta var gert með það í huga að hægt yrði að leggja fram nýja tillögu þegar á vorþingi 2014.

Í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur til grundvallar segir enn fremur að verkefnisstjórninni hafi orðið ljóst að hún mundi eingöngu ná að fjalla um þá þrjá virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár sem fjallað er um í 12. kafla álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um núgildandi verndar- og orkunýtingaráætlun og lagði í framhaldi tillögur sínar til ráðherra um að Hvammsvirkjun yrði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Í greinargerð á fylgiskjali með tillögunni koma fram ýmsar upplýsingar og gögn sem mæla með og jafnframt á móti því að hægt sé að taka afstöðu um breytta flokkun annarra valkosta, einkum og sér í lagi þeirra virkjunarkosta sem eru í neðri hluta Þjórsár, allra þriggja. Er þar vísað meðal annars í sérálit fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleiri umsagna.

Virðulegi forseti. Hv. atvinnuveganefnd hefur haft málið til umfjöllunar og kallað eftir fjölda umsagna og fengið í kjölfarið á sinn fund hátt í 70 aðila, fjöldann allan af aðilum, m.a. úr verkefnisstjórn áætlunarinnar og aðra þá aðila sem málið varðar. Nú liggur fyrir nefndarálit meiri hluta og að auki nefndarálit 1. minni hluta og annað frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar með frávísunartillögu, eins og ég kom hér inn á í upphafi.

Í nefndaráliti meiri hlutans er að finna breytingartillögu þar sem lagt er til að ásamt Hvammsvirkjun verði eftirtaldir virkjunarkostir á Suðurlandi settir í nýtingarflokk. Breytingartillaga fylgir álitinu. Hana er að finna á bls. 9 í nefndaráliti og tiltekur eftirfarandi kosti sem ég ætla að fá að lesa hér, með leyfi forseta:

„Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun.“

Þar kemur fram jafnframt að allar þessar virkjanir voru upphaflega settar í nýtingarflokk í niðurstöðu verkefnisstjórnar rammaáætlunar í 2. áfanga, og að meiri hlutinn byggi tillögu sína einkum á þeirri niðurstöðu.

Nú hefur minni hlutinn í raun undanfarna daga hindrað, leyfi ég mér að segja, framgang málsins á dagskrá og kemur hér sífellt upp í liðnum fundarstjórn og gagnrýnir form málsins. Ég er ekki að gera hér sérstaklega athugasemd við það, virðulegi forseti, en ég er bara að lýsa þeim framgangi sem málið hefur haft á dagskrá þingsins.

Ef ráðherra breytir tillögum verkefnisstjórnar eins og þær liggja fyrir ber ráðherra að setja þær breytingar í umsagnarferli, eins og þáverandi hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir gerði sannarlega þegar hún færði þá virkjunarkosti sem um ræðir í biðflokk úr nýtingarflokki eins og verkefnisstjórnin lagði upphaflega til í 2. áfanga. Hins vegar segir ekkert til í þessum lögum, nr. 48/2011, um málsmeðferðina á Alþingi, hvort þingmenn megi gera slíkar breytingar á tillögu ráðherra. Nú hefur forseti hins vegar úrskurðað um að málið sé þingtækt og meiri hluti hv. atvinnuveganefndar vísar í áliti sínu til þingskapa Alþingis þar sem kveðið er á um breytingartillögur við þingmál og er jafnframt vísað til stjórnarskrárbundins réttar sem veittur er til að leggja mál fyrir Alþingi.

Virðulegi forseti. Við, hv. þingmenn, getum auðvitað séð þann meiningarmun eða fest okkur í meiningarmun formsins, en það má auðvitað velta því fyrir sér hversu gagnlegt það er að ráðherra megi og geti lögum þessum samkvæmt lögum um rammaáætlun, nr. 48/2011, breytt ráðgefandi tillögum verkefnisstjórnar, lagt sínar tillögur fyrir þingið, en að þingið og hv. þingmenn megi síðan ekki leggja til breytingar á tillögu ráðherra að undangengnu faglegu umsagnarferli.

Mig langar hér, með leyfi virðulegs forseta, að vitna í eða vísa í umsögn Umhverfisstofnunar, sem sýnir í raun það sem við erum að kljást við. Í umsögn Umhverfisstofnunar segir, með leyfi forseta:

„Breytingartillaga þessi sem nú er til umfjöllunar sem og fyrri reynsla varpa ljósi á þá galla sem einkenna ferlið. Sú aðferðafræði sem lagt er upp með í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011, þ.e. að skilgreina virkjunarkosti og flokka þá eftir skilgreindum aðferðum, nær t.a.m. eingöngu til meðferðar mála hjá stjórnvöldum, þ.e. hjá framkvæmdarvaldinu, sem endar á því að ráðherra umhverfis- og auðlindamála leggur fram tillögu til þingsályktunar sem byggir á því ferli sem lýst er í lögunum. Eftir að tillagan er komin til Alþingis geta þingmenn gert breytingartillögur, rétt eins og við öll lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Skýra þyrfti nánar formkröfur til breytingartillagna í meðförum þingsins.“

Ég trúi því og held að hér sé mjög mikilvæg athugasemd sem lýtur að því að við þurfum að endurskoða þetta ferli, enda er ekki komin mjög löng reynsla á það og Umhverfisstofnun telur mikilvægt að farið verði yfir þá vankanta sem núgildandi lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, hafa að geyma. Um er að ræða nýja aðferðafræði sem eðlilegt er að endurskoða í ljósi reynslunnar.

Í framhaldinu þegar við ræðum okkur í gegnum þetta mál og komumst að niðurstöðu miðað við þær forsendur sem eru til staðar verðum við að skoða málið út frá þessu sjónarhorni.

Ég fæ hins vegar ekki skilið þær fullyrðingar að andi laganna, eins og margir hv. þingmenn hafa sagt og orðað oft og tíðum, fari út um þúfur. Það má vel vera að þar skorti mig þekkingu eða þann skilning á anda laganna, en ég tel mig til að mynda skilja þessa athugasemd frá Umhverfisstofnun, sem útskýrir að vissu leyti þann hnút sem málið er í hér á Alþingi. Víst er það svo að í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er um að ræða heildstæða löggjöf um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og m.a. er kveðið á um stöðu þeirrar áætlunar gagnvart stjórnvöldum. Þeim er ætlað að skapa grundvöll faglegs mats og flokkunar virkjunarkosta, enda voru lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun samþykkt hér á Alþingi af þingmönnum allra flokka og þannig staðfest skoðun allra þingmanna að lögin tryggi eins og frekast er unnt vandaða, markvissa og umfram allt faglega stefnumótun og grundvöll sáttar og stefnu um nýtingu og vernd náttúrunnar og þeirra landsvæða sem undir eru og koma til greina til virkjunarframkvæmda, þannig að enginn velkist í vafa um það, og ég greini frá því að ég er algjörlega á þeirri skoðun. Það er okkur algjörlega nauðsynlegt að hafa þetta verkfæri til sáttar.

Um þennan tilgang verður ekki deilt. En það jafnvægi sem við þurfum að finna skiptir sköpum á milli verndar og nýtingar, hvernig við nýtum möguleika okkar til atvinnuuppbyggingar, byggðaþróunar á grundvelli framtíðarlífskjara. Það jafnvægi mun alltaf byggja á því hver þörfin er og hvernig skynsamlegast er að nýta okkar auðlindir á þessu sviði þannig að þær skili sem mestum ávinningi fyrir þjóðina. Við höfum tekist hér á hendur á hinu háa Alþingi að vinna að löggjöf sem er stefnumarkandi og í því felst að við þurfum að taka stefnumarkandi ákvarðanir þar að lútandi.

Í meirhlutaáliti atvinnuvegnanefndar eru færð ágætisrök fyrir því að ferlið eins og lagt er upp með í lögunum sé ekki endilega til þess fallið að draga megi einhlítar ákvarðanir þegar kemur að hagkvæmni og skilvirkni. Þar er meðal annars bent á gagnaöflun er varðar umhverfismat áætlana. Ég ætla að fá að vitna til álitsins á bls. 4, en þar segir, með leyfi forseta:

„Markmið umhverfismats áætlana er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og jafnframt að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Með öðrum orðum hefur því verið haldið fram fyrir nefndinni að starf verkefnisstjórnar hafi að nokkru leyti snúið að því að kanna og óska gagna um atriði sem heyra fremur undir mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 (umhverfismat framkvæmda). Það mat fer fram á síðari stigum og verður t.d. ekki gefið út virkjunarleyfi nema mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir.“

Jafnframt segir að vandasamt geti verið að gefa einhlít viðmið um hvað heyri undir umhverfismat áætlana og hvað falli undir umhverfismat framkvæmda. Ég fæ ekki betur séð, virðulegi forseti, þó að auðvitað sé aldrei of varlega farið eða vandað til verka, en að það geti gerst að ferlið verði ítrekað og endurtekið og að það verði mögulega til þess að virkjunarkostir eða landsvæði sem skynsamleg eru til nýtingar komist ekki að eða komi fullseint á þann stað í nýtingarferli. Meiri hlutinn bendir þar réttilega á að þó svo að kostur falli í nýtingarflokk, þ.e. þó að sú flokkun gefi til kynna að það megi virkja, er það ekki ávísun á að það verði af virkjun.

Ef ég vík að þeim virkjunarkostum sem fram koma í breytingartillögu meiri hlutans þá hefur umræðan mikið snúist um virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Urriðafoss, Holts- og Hvammsvirkjanir. Þeir kostir voru allir settir í nýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar og hefur komið fram að áhyggjur af neikvæðum áhrifum á laxastofna árinnar urðu til þess að allir kostirnir voru færðir í biðflokk. Síðan þá hafa komið fram greinargerðir og upplýsingar um mótvægisaðgerðir og viðbrögð til þess að vernda fiskistofna. Þá færir meiri hlutinn ágætisrök fyrir því að færa Skrokkölduvirkjun til baka úr biðflokki aftur í nýtingarflokk og má lesa um í meirihlutaáliti á bls. 8, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ætlunin er að nýta fall milli tveggja manngerðra miðlunarlóna og verður virkjunin að mestu ósýnileg þeim sem fara um svæðið. Eina sýnilega mannvirkið að vegum undanskildum verður tæplega kílómetra langur frárennslisskurður frá frárennslisgöngum niður að viki í Kvíslavatni. Einnig má benda á að ekki felst tilfinnanlegur kostnaður í því að fjarlægja sýnileg mannvirki og loka aðkomugöngum og er virkjunin því afturkræf. Virkjunin mun tengjast flutningskerfinu með jarðstreng.“

Um Hagavatn þarf ekki að fjölyrða þar sem hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, hefur í samráði við hæstv. umhverfisráðherra lagt til að fallið verði frá þeirri breytingartillögu að færa Hagavatn úr biðflokki í nýtingarflokk.

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum um neðri hluta Þjórsár og maður fer yfir þau gögn sem liggja málinu til grundvallar, m.a. fjölmargar umsagnir þeirra aðila sem veittu umsögn og komu á fund hv. atvinnuveganefndar, þá kemur fram, eins og ég kom að fyrr í ræðu minni, að í mörgum þeirra er talið að fyrir liggi nægjanleg gögn til þess að hægt sé að tala um að faglegt mat hafi átt sér stað. Ég ætla ekki að skera úr um það hér og nú, en ég hef rætt þá kosti sem undir eru og þá tillögu sem liggur til grundvallar og það sem forsendur hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar gefa tilefni til. Umræðan hefur bæði verið um form og efni. Stjórnarandstaðan hefur ítrekað nýtt liðinn fundarstjórn forseta og haldið sig við formið mikið til en þó vil ég segja að margar ágætar og upplýsandi ræður hafa verið haldnar af hálfu minni hlutans. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur að fara í gegnum þá orðræðu.

Auðvitað greinir okkur á en það er eftir sem áður mikilvægt að við vinnum að því hér, og nú ætla ég að horfa á þá stefnumörkun sem er svo mikilvæg í þessu, að bæta lífskjör þannig að nýting og vernd auðlindanna verði lykilþáttur í þeirri vegferð. Ég mun alltaf verða fylgjandi því að við leggjum til grundvallar faglegt mat okkar færustu sérfræðinga og að við byggjum upp okkar atvinnuvegi og byggðir í sem mestri sátt.