144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir kjarnaspurningar. Ég veit ekki hvort stolt er rétta orðið. Það skiptir mjög miklu máli, svo að ég ítreki það nú, að við vinnum faglega að því hvernig við náum jafnvægi í því að vernda og nýta náttúruna, m.a. með það í huga hvernig við hugum að framtíðaruppbyggingu okkar atvinnuvega.

Formkröfurnar eiga aldrei að verða þannig að maður sé að leita að einhverjum glufum til þess að gera eitthvað. Þetta verður að byggjast á faglegum þáttum. Í fjöldamörgum umsögnum þeirra sem við mundum segja að væru hlynntari því að virkja kemur fram að gögn séu nægjanleg og bent á að þessir kostir, m.a. í neðri hluta Þjórsár, hafi verið í nýtingarflokki en teknir þaðan þrátt fyrir að fram hafi farið faglegt mat í 2. áfanga. Þar stendur þessi djúpstæði ágreiningur.

Nú á ég ekki sæti í hv. atvinnuveganefnd og ég er ekki á þessari tillögu. Ég er búinn að lesa öll nefndarálitin, ég er að vinna mig í gegnum þau og ég er að meta málið eins faglega og kostur er. Ég sé mismunandi skilaboð í fjöldamörgum umsögnum. Ég mun ekki kvitta upp á eitt eða neitt nema það sé tryggt að faglegur grundvöllur sé fyrir því sem við erum að gera hér. Þetta er stórmál.