144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[01:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir góða spurningu og hlý orð í minn garð. Mér þótti vænt um að heyra það og finnst mikilvægt að við leggjum okkur fram um að ná lausn á málum og ræða okkur áfram með málin. Ég er þeirrar skoðunar að við getum leyst þetta. Við viljum öll halda í faglegt ferli. Við viljum öll halda í þau lög sem ramminn er og það verkfæri sem þó er og komin þessi reynsla á. Við getum, trúi ég, bætt það en við verðum þá að ákveða það, ég hef ekki lausn á því hér og nú, en við þurfum að ákveða hvernig ferlið er í framhaldinu.

Þegar ráðherra fær þetta ráðgefandi álit verkefnisstjórnar getur hann — ég veit að hv. þingmaður hefur skoðun á því og hefur rætt það hér, þann þátt með ráðherra — sem hluti af framkvæmdarvaldinu og svo hér löggjafarvaldinu átt þessi pólitísku afskipti. Við vitum það auðvitað ekki nákvæmlega á hvaða forsendum hæstv. ráðherra gerir þessar breytingar þegar hann tekur úr biðflokki í nýtingarflokk eða öfugt, en nú er ekki komin það löng reynsla á þetta. Nú stöndum við frammi fyrir því í þinginu að vilja gera þessar breytingar. Ég held að við þurfum að klára það inn í lögin alla leið. Ég hef ekki lausn á því hér og nú hvernig við sjáum það fyrir okkur, en ég tel þó að það geti ekki verið þannig að — við þurfum alla vega að skýra (Forseti hringir.) þessar formkröfur mjög nákvæmlega hvernig við tökumst á við þetta í þinginu. Ég er eiginlega ekki kominn lengra en þangað.