144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að það er mikið óráð að halda áfram því máli sem hér er á dagskrá, rammanum. Síðast í gær kom skýrt fram hjá aðilum vinnumarkaðarins, bæði aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og forseta ASÍ, að þetta mál hefði ekkert að gera með kjarasamninga, það hefði ekki einu sinni komið upp, þannig að hæstv. forsætisráðherra sagði okkur ósatt í þingsal um ástæðuna (Gripið fram í.) fyrir því að þetta væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Menn hafa kallað hér „forsendubrestur“ af ýmsu tilefni og ef þetta er ekki forsendubrestur fyrir málinu (Forsrh.: Er þetta ósatt?) þá veit ég ekki hvað.

Ég hitti um daginn kenískan þingmann sem sagði mér ágætisspakmæli. Þau eru: Ef maður kýs að fara hratt hleypur maður einn, en ef maður fer hins vegar hægar yfir er það vegna þess að maður er hönd í hönd með öðru fólki. Mér finnst að við eigum að hafa það í huga í þessu máli. Við bjóðum ríkisstjórninni (Forseti hringir.) að ganga hér hönd í hönd í rammanum, en þá verðum við líka að fara hægar yfir og fylgja verkefnisstjórninni.