144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er mikið óráð að halda áfram þessari umræðu um rammaáætlun. Ég vil biðja hæstv. forseta að ígrunda það mjög alvarlega að taka málið af dagskrá til þess að freista þess að ná einhverju jafnvægi í umræðuna.

Komið hefur í ljós við umræðuna og umræður um fundarstjórn forseta undanfarna daga mjög víðtæk vanþekking stjórnarliða á innihaldi, efnisþáttum og formi máls. Raunar hefur það komið upp í umræðunni að hæstv. forsætisráðherra hefur rökstutt breytingar á rammaáætlun með tilvísun til krafna Alþýðusambands Íslands og skýlir sér þar með, þessi forsætisráðherra forréttindanna á Íslandi, bak við fátækasta fólkið á Íslandi til þess að ganga gegn íslenskri náttúru.

Virðulegi forseti. Staðan er orðin svo alvarleg og ófriðurinn er orðinn svo mikill í samfélaginu öllu að hér er lag að (Forseti hringir.) lægja öldur inni í þinginu sjálfu og ég hvet hæstv. forseta til að gera það.