144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé ekki seinna vænna að taka þetta þingmál af dagskránni. Við skildum auðvitað ekkert í því hér dögum saman hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin væri með þetta skrýtna mál á dagskránni meðan landið logar í kjaradeilum og stefnir allt í mikil óefni. Þá kom hingað hæstv. forsætisráðherra, virðulegur forsætisráðherra að segja, og útskýrði fyrir okkur að ástæðan fyrir því að þetta væri á dagskrá væri að það væri svo brýnt í kjarasamningum. Ég verð að játa, virðulegur forseti, að í smástund hugsaði maður: Já, nú, það er sem sagt einhver ástæða fyrir því að þetta er á dagskránni.

Hvað kemur svo í ljós? Það koma bæði forustumenn atvinnurekenda og forustumenn verkalýðshreyfingarinnar og segja: Nei, þetta hefur aldrei verið rætt í kjarasamningum. Þetta er bara fullkominn misskilningur. Forsætisráðherra virðist hafa dreymt þetta eða ímyndað sér það eða haldið að þetta varðaði eitthvað við kjarasamninga. En það gerir það ekki og fyrst svo er ekki þá á að taka málið af dagskrá og taka húsnæðismál Eyglóar Harðardóttur (Forseti hringir.) félags- og húsnæðismálaráðherra á dagskrána eða eitthvað sem gagnast getur til lausnar þeim erfiðu deilum sem uppi eru í samfélaginu.