144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vek athygli forseta á því að í yfirstandandi málþófi stjórnarandstöðunnar er verið að slá ýmis met. Stjórnarandstaðan hefur í þessari umræðu, bara í þessari umræðu á rúmri viku haldið 783 ræður um fundarstjórn forseta. [Háreysti í þingsal.] Annað eins hefur aldrei sést áður. Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Annað eins hefur aldrei sést áður. (Gripið fram í.) Sú nýja pólitík sem að minnsta kosti sumir stjórnarandstöðuflokkanna boðuðu er nú farin fyrir lítið. Þingmenn Bjartrar framtíðar og Pírata eru með virkustu þátttakendum í þessu metmálþófi (Gripið fram í.) þannig að ekki aðeins reyndust þeir jafn slæmir og allir hinir, (Gripið fram í.) þeir reyndust verri. [Frammíköll í þingsal.] Hér eru menn auk þess farnir að brjóta ýmsar og flestar umgengnisvenjur sem tíðkast hafa hér á þinginu, svo ekki sé minnst á almenna kurteisi. [Háreysti í þingsal.] Það má öllum vera …

Virðulegur forseti. Getur virðulegur forseti haft stjórn á fundi?

(Forseti (EKG): Forseti reynir sitt besta í þeim efnum.)

Það má öllum vera ljóst í hvers konar óefni er komið þegar þingmaður er farinn að tjá sig við fjölmiðla um það hversu oft eða hvort annar þingmaður hafi farið á salernið á ferðalagi. Þegar þessi staða er komin upp hér á þingi og í umræðum við fjölmiðla má öllum vera ljóst hvers konar óásættanleg niðurstaða (Forseti hringir.) er orðin í þeim leikaraskap (Forseti hringir.) sem stjórnarandstaðan viðheldur hér (Forseti hringir.) og færir svo í aukana í viðtölum við fjölmiðla með öðrum eins lýsingum og ég nefndi hér. (Gripið fram í.)